Jökulhlaup líklega hafið

Horft yfir Fremri-Emstruá og Entujökul.
Horft yfir Fremri-Emstruá og Entujökul. mbl.is/Þorsteinn

Jökulhlaup er líklega hafið í Fremri Emstruá. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að skálaverðir í Emstruskála hafi tilkynnt um megna brennisteinslykt í morgun. 

Emstruskáli er skáli á Laugaveginum, gönguleiðinni milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Fremri Emstruá á upptök sín í Entujökli og rennur síðan í Markarfljót, en smá jökulhlaup með mikilli brennisteinslykt eru nærri árlega á þessu svæði.

„Ítrekað er að ekki er búist við mikilli hættu af hlaupvatninu, en gasmengun við upptök árinnar og í lægðum í landslaginu umhverfis ána getur skapað hættu. Gasmengun getur m.a. valdið ertingu augum og hálsi og ef fólk verður vart við það er því ráðlagt að koma sér ofar í landslagi og fjær ánni,“ segir í tilkynningunni. 

Vakthafandi sérfræðingur á vakt á Veðurstofu Íslands segir í samtali við mbl.is að um hádegi hafi minni gasmengun mælst og að þegar lögreglan á Hvolsvelli hafi farið í vettvangsferð að ánni hafi þeir mælt litla mengun. 

Segir hann enn fremur að lítið vatn komi vanalega í jökulhlaupi í Emstruá. Helst sé að varast áður nefnda gasmengun 

Lyktarskyn getur mettast í háum styrk gassins og því ekki hægt að treysta alfarið á lyktarskyn sem viðvörun. Búast má við því að jökulhlaupið standi yfir í nokkra daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert