Langur biðlisti vegna myglu

Háskólinn á Bifröst er nú á biðlista hjá verkfræðistofunni Eflu …
Háskólinn á Bifröst er nú á biðlista hjá verkfræðistofunni Eflu vegna myglu sem greindist í háskólanum í síðustu viku. Samsett mynd

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur og sérfræðingur í innvist hjá Eflu verkfræðistofu, segir biðlistann hjá stofunni vegna bygginga sem greinast með myglu vera langan. Það geti jafnframt boðið upp á ákveðin flækjustig fyrir framkvæmdir þegar hús eru friðlýst.

Eins og mbl.is sagði frá í gær greindist mygla í síðustu viku í Háskólanum á Bifröst eftir að starfsfólk og nemendur kvörtuðu undan einkennum. Byggingum skólans hefur því verið lokað en myglan mun ekki koma til með að hafa áhrif á rekstur skólans. Mar­grét Jóns­dótt­ir Njarðvík, rektor há­skól­ans, sagði í samtali við mbl.is að skólinn biði eftir því að komast að hjá verkfræðistofunni Eflu sem mun aðstoða skólann með næstu skref.

Skólar í forgangi

Spurð hvort að Bifröst þurfi að bíða lengi eftir því að komast að hjá Eflu segir Sylgja Dögg að biðlistinn sé langur en að skólar og sjúkrastofnanir séu í forgangi hjá stofunni. 

„Yfir sumarið, þegar skólarnir eru í fríum, er mikill framkvæmdarfasi í gangi og mikið sem þarf að laga fyrir haustið og við reynum að nýta þann glugga sem gefst þegar skólinn er ekki í starfsemi. Biðlistinn er langur en við setjum þessar stofnanir í forgang og röðum verkefnum þannig.“

Aldur ekki eina sem skiptir máli

Spurð hvenær má búast við að framkvæmdir hefjist á Bifröst segir Sylgja ekki tímabært að segja til um það þar sem ferlið er á byrjunarreit.

Aðspurð segir hún aldur ekki skipta öllu máli þegar það kemur að myglu í húsnæði og bendir á að framkvæmd og hönnun húsa spili þar oft lykilhlutverk. Eins og greint var frá í gær greindist mygla bæði í eldra og nýrra húsnæði Bifröst.

„Ég get ekki tjáð mig um hús sem ég er ekki búin að skoða. Þetta er í rauninni þannig að þar sem að vatn nær að leka inn í byggingarefni skiptir aldur í rauninni ekki það miklu máli þó að það séu meiri líkur í eldra húsnæði. Nýjar byggingar geta lent í vandræðum ef það er illa staðið að framkvæmdum, hönnun eða viðhaldi.“

Friðlýsing geti verið til vandræða

Elstu skóla­bygg­ing­arn­ar á Bif­röst voru friðlýst­ar af Minja­stofn­un árið 2020 en Sylgja segir að oft sé hægt að finna lausn á þeim flækjustigum sem koma upp þegar farið er í framkvæmdir á friðlýstum húsum til að sporna gegn myglu.

„Það þarf alltaf að taka tillit til þess þegar hús eru friðlýst og skoða hvaða hluti er friðlýstur og hvað er hægt að gera. Friðlýsing er oftast að vernda útlit og í einhverjum tilfellum er hægt að halda útliti þótt þú breytir einhverjum lausnum eða eitthvað slíkt.

Friðlýstir útveggir geta verið til vandræða á Íslandi því við höfum verið að einangra að innan og ef við ætlum að halda áfram að gera það þarf í rauninni miklu meiri yfirlegu yfir þær lausnir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert