Þorlákur Einarsson
Félag framhaldsskólakennara er að leggja lokahönd á kjarasamningsgerð fyrir þá félaga sína sem ekki starfa í ríkisreknum skólum.
Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir í samtali við mbl.is að viðræðum vegna Tækniskólans sé að ljúka, Verzlunarskólinn hefði klárast fyrir helgi, en enn eigi eftir að klára mál Menntaskóla Borgarfjarðar.
Þótt Guðjón sé bjartsýnn í tali hafa viðræður ekki verið auðveldar. Hið opinbera, sem fjármagnar rekstur einkaskólanna, hafi verið tregt í taumi að hans sögn.
„Það er eins og það sé eitthvað erfiðara þessi misserin að einkaskólar fái sömu fjármögnun og ríkisskólar,“ segir Guðjón og bætir við: „Við getum ekki þolað það að félagsfólk okkar sem er að sinna alveg sams konar störfum sé mismunað hvort sem [það] starfi hjá ríki eða á almenna markaðinum“.
„Það hefur gengið saman núna eftir smá streð. Þetta viðhorf ríkisins tafði eðlilegar samningaviðræður,“ segir Guðjón að lokum.