Mikael Marinó Rivera Reykvíkingur ársins

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikael Marinó Rivera, grunnskólakennari í Rimaskóla í Grafarvogi er Reykvíkingur ársins 2023. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tilkynnti valið í morgun við opnun Elliðaánna.

Þetta er í þrettánda sinn sem Reykvíkingur ársins er valinn.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að Mikael fari aðrar leiðir í að virkja nemendur sem finna ekki sitt áhugasvið í hefðbundnum námsgreinum í skólanum. Hann hefur meðal annars boðið upp á valáfanga í fluguveiði í Rimaskóla og kynnt fluguveiði fyrir unglingum af eigin frumkvæði þar sem hann blandar saman kennslu í náttúru- og líffræði við kynningu á fluguveiði sem íþrótt og góðu útivistartækifæri.

„Þessa viku er Mikael einmitt með hóp af unglingum úr Rimaskóla í veiðiferð í Elliðaánum og voru þau mætt í morgun til að fagna með kennara sínum,“ segir í tilkynningunni.  

Ökuskóli, Hringadróttinssaga og hlaðvarpsgerð

Auk stangveiði hefur Mikael boðið upp á óvenjulegar valgreinar en þeirra á meðal eru: Ökuskóli Mikaels, sem er undirbúningur fyrir hefðbundið ökunám, Hringadróttinssaga, þar sem kafað er dýpra í hugarheim J.R.R. Tolkiens, og hlaðvarp þar sem nemendur læra að gera hlaðvörp, allt frá handritagerð til birtingar á efni.

Þá hefur Mikael einnig boðið upp á valáfanga um Evrópuknattspyrnuna þar sem farið er yfir leiki vikunnar í stærstu deildum Evrópu, farið í gamla tölvuleiki og borðspil.

Haft er eftir skólastjóri Rimaskóla, Þórönnu Rósu Ólafsdóttur að Mikael efli góðan starfsanda, hann sé úrræðagóður og hiki ekki við að koma með gleðina inn í skólastarfið.

„Útnefningin kom mér mjög á óvart, en þetta er virkilega ánægjulegt. Það er gaman að fá viðurkenningu fyrir kennsluna, og ég hlakka til að halda áfram að vinna með nemendum Rimaskóla,“ er haft efir Mikael. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert