Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, telur eðli norræns samstarfs hafa gerbreyst eftir innrás Rússa í Úkraínu.
Hún mælir það meðal annars á því að þegar forsætisráðherrar ríkjanna hittast, sem gerist reglulega, séu öryggis- og varnarmál æ fyrirferðarmeiri á dagskrá. Sögulega voru þessi mál aldrei rædd, vegna ólíkrar afstöðu í utanríkismálum.
Þórdís Kolbrún sat fund NORDEFCO í Reykjavík í dag ásamt varnarmálaráðherrum fjögurra Norðurlanda. NORDEFCO er samstarfsvettvangur norrænna þjóða í varnarmálum.
Þórdís Kolbrún segir við mbl.is: „Það mun ýmsu breyta þegar Svíar verða orðnir fullir aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Það mun gera okkur kleift að vinna enn nánar saman. Við bíðum eftir því og beitum okkur fyrir því að það klárist fyrir leiðtogafundinn í júlí.“
Hún vísar hér til leiðtogafundar NATO sem haldinn verður haldinn í Vilníus í Litáen 11.-12. júlí. Þegar gengið er á hana hversu bjartsýn hún sé um inngöngu Svía innan þeirra tímamarka, svarar hún, „ef ég á að vera alveg heiðarleg, þá fer það dálítið eftir því hvaða dagur er. Ég er vongóð, en raunsæ með það að pólitík og samskipti þjóða geta verið flókið fyrirbæri.“
Hún leggur þó mikla áherslu á það að aðild Svía sé ekki eitthvað góðverk. Það muni styrkja fælingarmátt bandalagsins vegna alls þess sem Svíar hafa fram að færa, ekki bara legu lands síns, heldur herstyrk og góða innviði.
Utanríkisráðherra segir að Ísland hafi lagt sig meira fram í samstarfinu innan NORDEFCO og nefnir líka annað samstarf eins og sameiginlegu viðbragðssveitina JEF og innan NATO.
„Við sækjum fleiri fundi inn á hermálahliðinni. Það gerum við bæði til að koma okkar sjónarmiðum á framfæri, til þess að læra og gera okkur betur í stakk búin til að bregðast við. Sömuleiðis viljum við máta okkar áætlanir við aðrar enda er það mat okkar að staðan er alvarlegri en hefur verið í nokkuð langan tíma.“
Þórdís Kolbrún óttast það ekki að NORDEFCO gæti verið skilið sem svæðisbandalag eða blokk innan NATO. „Það er alger meðvitund um það á meðal Norðurlandanna að við ætlum ekki að mynda sjálfstæða blokk innan bandalagsins. Ég held að fólk átti sig á því að þetta verður ekki vandamál.“
Hún bendir á það að mikið sé um tvíhliða samstarf innan bandalagsins sem ekki trufli sameiginlegar ákvarðanir þess.