Þorlákur Einarsson
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Pål Jonson, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, settu fund norrænna varnarmálaráðherra á Hilton Nordica í dag. NORDEFCO er samstarfs- og samráðsvettvangur norrænna ríkja í varnarmálum.
Áður en Þórdís Kolbrún gaf Pål Jonson orðið sagðist hún óska þess að Svíar yrðu fljótt aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Hún sagði að framlag NORDEFCO væri framlag til öryggis á Norður-Atlantshafssvæðinu.
Svíar fara nú með formennsku í NORDEFCO. Jonson sagði að norrænu ríkin væru sameinuð í stuðningi sínum við Úkraínu. Hann sagði að áherslur formennsku Svía hafi snúist um forgang á varnir í norðurhluta Evrópu og að viðbúnaður þar gæti brugðist við öllum aðstæðum.
Hann minntist líka á mikilvægi norrænar framtíðarsýnar fyrir árið 2030, sem kveður á um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims.