Segir Bjarna ekki „ráða við svona flókið tónverk“

Jódís Skúladóttir, þingmaður VG svaraði Jóni Gunnarssyni fyrrverandi dómsmálaráðherra fullum …
Jódís Skúladóttir, þingmaður VG svaraði Jóni Gunnarssyni fyrrverandi dómsmálaráðherra fullum hálsi á Facebook í dag og notaði tækifærið og skaut á Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra í leiðinni. Samsett mynd

„Innanmein Sjálfstæðisflokksins eru átakanleg á að horfa. Hádramatískur tangó Jóns og Gunnu hefur verið frekar taktlaus og feilsporin stigin á sárar tærnar aftur og aftur enda virðist hljómsveitarstjórinn Bjarni Ben ekki alveg ráða við svona flókið tónverk.“

Þannig hefst færsla Jódísar Skúladóttur, þingmanns Vinstri grænna og 6. varaforseta Alþingis, á Facebook. Í færslunni svarar Jódís Jóni Gunnarssyni, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem tjáð sig hefur undanfarið um ríkisstjórnarsamstarfið í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Velta sér upp úr rasíska drullupollinum

„Til að víkja athygli þjóðarinnar frá þessum darraðardansi og til að bregðast við fylgistapi, sameinast þau nú öll í að velta sér upp úr rasíska drullupollinum í von um að geta kroppað inn einhver prósent frá systurflokkum sínum í útlendingamálum, Miðflokki og Flokki fólksins.“

Jódís segir í færslunni að henni renni blóðið til skyldunnar, sem eini fulltrúi Vinstri grænna í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, að leiðrétta Jón um þinglega meðferð mála sem tilheyra dómsmálaráðuneytinu og hafa fengið þinglega meðferð innan nefndarinnar. 

Segir hún Vinstri græn ekki tala fyrir opnum landamærum. Segir hún flokkinn vilja skilvirkt kerfi sem tryggir öllum sem leita til Íslands réttláta málsmeðferð. „Niðurstöðu þeirrar meðferðar ber svo að virða. Þingleg meðferð útlendingafrumvarpsins var erfið en en ég er stolt af þeim mikilvægu breytingum sem frumvarpið tók og tryggðu mannréttindi fólks á flótta.“

Jódís ásamt Katrínu Jakobsdóttur formanni VG og forsætisráðherra.
Jódís ásamt Katrínu Jakobsdóttur formanni VG og forsætisráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Árinni kennir illur ræðari

Segir hún flokkinn hafa gert mikla fyrirvara við frumvarp Jóns um afbrotavarnir. „Við gerum okkur grein fyrir því að heimurinn er breyttur og mikilvægt sé að vinna gegn skipulegri brotastarfsemi. Breytingarnar sem Jón vildi ná fram á lögreglulögunum hefðu hins vegar gefið lögreglu heimild til rannsóknaraðgerða án þess að rökstuddur grunur væri fyrir hendi um refsiverða háttsemi,“ segir í færslunni.

Jódís segir að mun meira réttaröryggi væri fólgið í því að slíkar aðgerðir yrðu ákvarðaðar samkvæmt úrskurði dómara.

„Þetta kom auðvitað til tals í nefndinni, þetta kom til tals með starfsfólki Jóns, hvernig svo samskiptin eru innan hans flokks, eða innan hans fyrrverandi ráðuneytis skal ég ekki tjá mig um, en ég sinni mínu hlutverki sem þingmaður af ábyrgð – hafi okkur tekist að veita borgurum vernd gegn geðþóttaafskiptum stjórnvalda og þá sérstaklega lögreglu, í þessu tilviki er ég er stolt af því.

Það skiptir nefnilega máli að allar lagasetningar séu vel ígrundaðar og að mannréttindi fólks séu höfð í forgrunni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd í dómsmálaráðuneytinu um árabil. Árinni kennir illur ræðari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert