Sólbjörg fer til Wyoming að grafa upp risaeðlu

Uppgröftur eftir beinum úr þríhyrnu sem fyrirhugað er að gefa …
Uppgröftur eftir beinum úr þríhyrnu sem fyrirhugað er að gefa Íslandi stendur nú yfir. Samsett mynd

Sólbjörg Jóna Sigurpálsdóttir, nemandi í fornleifafræði við Háskóla Íslands, heldur út til Wyoming-ríkis í Bandaríkjunum á þjóðhátíðardag þeirra, þann 4. júlí, til að taka þátt í uppgreftri á risaeðlubeinum úr þríhyrnu sem fyrirhugað er að gefa Reykjavíkurborg.

Sólbjörg segist spennt fyrir ferðinni og segir þetta einstakt tækifæri. Hún vonast til þess að risaeðlubeinin verði flutt til Íslands og verði til sýnis hér.

Borgarráð ákveður örlög risaeðlunnar

Stýrihópur sem Reykjavíkurborg setti saman á enn eftir að skila kostnaðaráætlun um viðhald og framsetningu risaeðlunnar og í kjölfarið mun borgarráð Reykjavíkur þurfa að samþykkja áætlunina.

Eins og áður hef­ur verið greint frá fann Marcus Erik­sen, fram­kvæmda­stjóri Leap Lab, þrí­hyrnu í Wyom­ing-ríki í Banda­ríkj­un­um en hann óskaði eft­ir því að gefa Reykja­vík­ur­borg hluta úr beina­grind­inni. Erik­sen á ís­lenska móður og hef­ur sett það sem skil­yrði fyr­ir gjöf­inni að risaeðlan beri nafn móður sinn­ar. Upp­gröft­ur á risaeðlubein­un­um stend­ur enn yfir.

Dvelja í tjaldi í eyðimörk í viku

„Það stóð í frétt um þetta að Íslendingum værir boðið að koma með og ég er að læra fornleifafræði svo þetta var bara fullkomið tækifæri og ég hafði samband við Marcus um leið,“ segir hún.

Sólbjörg verður eini Íslendingurinn á svæðinu en að hennar sögn voru fjórir aðrir Íslendingar búnir að sýna áhuga á þessu ævintýri. Enginn þeirra ákvað þó að fara. Hún tekur fram að hún muni hitta Eriksen og aðra sem taka þátt í uppgreftrinum í litlum bæ í Wyoming þann sjötta júlí áður en haldið er á svæðið þar sem þau munu dvelja í viku.

Að sögn Sólbjargar munu þau tjalda á svæðinu þar sem uppgröfturinn fer fram í hálfgerðri eyðimörk. Hún tekur fram að ekkert er í grennd við svæðið svo að hún þarf að taka með sér vatn, mat og allar aðrar nauðsynjar. 

Vonar að risaeðlan verði flutt til landsins

Spurð hvort að hún sé vongóð um að Reykjavíkurborg samþykki að flytja risaeðluna til landsins og setja hana upp til sýnis svarar hún játandi.

„Ég vona það. Ég veit samt ekkert hvar þau ætla að geyma hana. Það þyrfti hreinlega að finna nýtt húsnæði fyrir hana. Ég held að það sé ekki nóg pláss á Þjóðminjasafninu,“ segir hún en tekur þó fram að mikil verðmæti geti falist í að fá beinagrindina til landsins.

Hún bendir á að það að fá risaeðluna til landsins geti verið mjög gott tækifæri fyrir háskólann og til að vekja upp áhuga hjá fólki á fornleifafræði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert