„Skólastarfið í dag á náttúrulega að vera allt annað en að sitja bara og læra í bók,“ segir grunnskólakennarinn Mikael Marinó Rivera sem í morgun var valinn Reykvíkingur ársins. Hann fer nýjar leiðir í virkja nemendur sem finna ekki sitt áhugasvið í hefðbundnum námsgreinum í skóla, en hann kennir við Rimaskóla í Grafarvogi.
Fram kom í tilkynningu vegna valsins að hann hafi skapað nýjar valgreinar til að efla áhugasvið nemenda sem komnir eru með skólaleiða. Meðal þeirra greina sem hann kennir eru fluguveiði, undirbúningur fyrir ökunám, hlaðvarpsgerð og Hringadróttinssaga.
Í samtali mbl.is við Mikael segir hann starf sitt gefandi. Hann leggi mikið upp úr því að finna stöðugt eitthvað nýtt að gera og þyki það alltaf jafnskemmtilegt þegar krakkarnir eru tilbúnir að taka þátt í því.
„Það er það besta við þetta; þau eru að meðtaka þetta og eru til í það sem ég býð upp á,“ segir hann og kveðst heppinn með vinnustað. Í Rimaskóla séu hugmyndir hans teknar opnum örmum og honum veitt tækifæri til að kenna viðfangsefni sem hann hefur ekki endilega sérfræðiþekkingu á.
Að sögn Mikaels hefur eigin námferill haft mikil áhrif á starf hans sem kennari.
„Ég var nú enginn heimsklassa nemandi sjálfur. Ég átti við námserfiðleika að stríða og það hefur alveg klárlega haft áhrif á hvernig ég nálgast starfið,“ segir hann og bætir við: „Sumir eru bara lengur af stað og ég er gott dæmi um það.“
Hann leggur því áherslu við nemendur sína á að hafa ekki of miklar áhyggjur þó þeir þurfi að hafa fyrir náminu, enda hefjist alvara lífsins ekki um leið og maður útskrifast úr grunnskóla. Hann hafi til dæmis ætlað að verða tannlæknir en klári núna alsæll 14. veturinn sinn sem kennari.
„Ég eiginlega veit ekki hvernig ég varð kennari en ekki tannlæknir,“ segir hann en greinir þó frá því að hafa alltaf átt auðvelt með að koma hlutunum frá sér. „Ég er bara mjög þakklátur, þetta er besta starf í heimi,“ bætir hann við.
Í starfi sínu fær Mikael tækifæri til að kenna eitt af sínum helstu áhugamálum, fluguveiði. Greinir hann frá því að sú valgrein hafi gengið sérstaklega vel og hann sé nú að kenna hana í annað skipti. Ásamt nemendum sínum í faginu hefur hann farið í þónokkrar laxveiðiferðir, sem þyki fremur óvenjulegt.
„Ég myndi segja að þetta væri ansi veglegt miðað við hefðbundið skólastarf, en ég er líka oft að benda á að laxveiði er ekki bara glamúr, þetta er ekki bara ríkra manna sport,“ segir hann og bætir við: „Það geta allir veitt.“
Hefð er fyrir því að Reykvíkingur ársins opni Elliðaárnar ásamt borgarstjóra og þegar mbl.is náði tali af Mikael var hann staddur í ánni. Sagðist hann gera ráð fyrir að vera þar í allan dag en með honum voru átta nemendur úr veiðivaláfanganum sem hann kenndi í vetur.