Þarf að sanna fjárhagslegt tjón

Arnar Gunnar Hjálmtýsson, forstöðumaður áfangaheimilisins Betra líf svarar Ívari Pálssyni …
Arnar Gunnar Hjálmtýsson, forstöðumaður áfangaheimilisins Betra líf svarar Ívari Pálssyni hæstaréttarlögmanni en nágrannar áfangaheimilis Betra lífs í Vatnagörðum eru ósáttir við starfsemina og hafa ráðið Ívar til að gæta hagsmuna sinna. Samsett mynd

„Áfangaheimili er ekki leyfisskyld starfsemi en við vorum reyndar búin að fá leyfi hjá öðrum eigendum í húsinu fyrir starfseminni.“

Þetta segir Arnar Gunnar Hjálmtýsson, forstöðumaður áfangaheimilisins Betra líf en Betra líf hefur rekið áfangaheimili á efri hæð húsnæðis við Vatnagarða 16-18 síðan á síðasta ári.

Eldur kom upp í húsnæðinu fyrr á árinu og standa framkvæmdir nú yfir vegna þess.

Tveir eigendur húsnæðis í Vatnagörðum 16 hafa ráðið Ívar Pálsson hæstaréttarlögmann hjá Landslögum til að verja hagsmuni sína vegna starfsemi áfangaheimilisins. Ívar sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að engin leyfi hafi verið gefin út fyrir rekstri áfangaheimilisins eða breytingum á húsnæðinu.

Arnar segir það skýrt í lögum að vilji einhver að starfsemin verði lögð niður þurfi viðkomandi að sanna fjárhagslegt tjón vegna hennar.

Hálpa heimilislausu fólki

„Við höfum verið að hjálpa heimilislausu fólki sem eru mikil vandræði með. Borgin hefur ekki getað sinnt skyldum sínum hvað það varðar í áratugi og ástandið hefur versnað til mikilla muna eftir að Sjálfstæðisflokkurinn fór frá í borginni,“ segir Arnar Gunnar.

Segist hann hafa opnað áfangaheimili árið 2019 í húsnæði sem hann tók á leigu í Kópavogi í kjölfar þess að hann vantaði úrræði fyrir son sinn sem hafði verið í vandræðum með að fá pláss á áfangaheimili. Þá þurfti starfsemin að fara úr húsnæðinu í Kópavogi þar sem eigandi þess var ekki tilbúinn að gera breytingar sem slökkviliðið krafðist.

„Við höfðum alltaf verið með það á stefnuskránni að komast í eigið húsnæði og í mars á síðasta ári bauðst mér þetta húsnæði í Vatnagörðum og það varð úr að ég tók með mér 18 einstaklinga sem höfðu búið hjá okkur í Kópavogi.“

Arnar segist hafa keypt efri hæðina í Vatnagörðum 16-18 af Reginn fasteignafélagi og farið með gögn frá fasteignasalanum í bankann vegna kaupanna sem sýndu að húsnæðið væri samþykkt. Fékk hann lán út á þau gögn.

„Svo kemur í ljós eftir brunann í vor að Reginn hafði bara sent teikningar inn af Vatnagörðum 18 en ekki 16. Hvorki ég né bankinn áttuðum okkur á þessu en um leið og okkur var bent á þetta lét ég teikna upp Vatnagarða 16 og sendi til byggingafulltrúa til samþykktar 5. maí. Ég bíð eftir svari þaðan.“

„Fæði, klæði, húsnæði“

Segir Arnar einstakling á neðri hæð Vatnagarða 16-18 hafa gríðarlega fordóma gagnvart heimilislausu fólki. „Honum finnst hann eiga meiri rétt á því að hata heimilislaust fólk en að heimilislaust fólk eigi rétt á því að hafa húsnæði.“

Ísland er aðili að mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna eins og Arnar segir frá og vísar hann í sáttmálann.

„Öllum þjóðfélögum ber skylda til að veita öllum, allt þetta sem hún Inga Sæland er alltaf að segja á þingi: „Fæði, klæði, húsnæði“ sem og læknisþjónustu og félagsþjónustu. Þetta eru þessi fimm skilyrði sem íslenska ríkið er búið að skrifa undir og samþykkja fyrir hönd allra Íslendinga.

Ég er búinn að tala við lögfræðing og það er afskaplega skýrt í lögum að ef þessi einstaklingur er á móti þessari starfsemi og vill fá hana niðurlagða þá þarf hann að færa sönnur á það að hann beri fjárahagslegt tjón vegna okkar starfsemi.“

„Ég, um mig, til mín“

Arnar segir að húsnæðið sé komið í stand en hann sé óviss með að það verði aftur notað fyrir starfsemi áfangaheimilisins. Að ýmis fyrirtæki hafi sýnt húsnæðinu áhuga og að hann sé opinn fyrir kauptilboðum.

Að lokum segir Arnar að það viti enginn hvað það er að vera heimilislaus fyrr en hann lendir í því sjálfur.

„Maður verður dálítið þreyttur á þessu sinnuleysi borgaryfirvalda og þessir menn sem eru með fordóma gagnvart þessu fólki geta ekki sett sig í fótspor annarra og eiga ekki til kærleika í sínum ranni heldur hugsa þeir bara ég, um mig, til mín. Það er ekki til frá mér í þeirra huga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert