Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnti uppbyggingu hagkvæmra íbúða fyrir tekju- og eignaminni á fundi HMS í dag. Stefnt er að því að byggja 2.800 íbúðir fyrir þann hóp á árunum 2023 til 2025 í stað 1.250 íbúða sem áður var áætlað. Þar af verða 800 byggðar á þessu ári.
„Aðgerðirnar eru mjög mikilvægar fyrir þennan hóp tekju- og eignaminni sem ekki getur eignast húsnæði öðruvísi en með opinberum stuðningi,“ segir Sigurður Ingi í samtali við mbl.is.
Þá hafa stjórnvöld ákveðið að tvöfalda fjármagn til stofnframlaga til leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins og hlutdeildarlána til íbúðarkaupa.
Sigurður segir að um sé að ræða stórt skref í átt að jafnvægi á húsnæðismarkaði sem sé lykilinn að því að skapa jafnvægi í efnahagsmálum.
Spurður hvort aðgerðirnar muni duga til við að ná tökum á verðbólgu og aðstoða tekju- og eignaminna fólk svarar Sigurður Ingi að þær muni að minnsta kosti hjálpa til.
„Þetta mun alla vega hjálpa til. Er þetta nóg? Við erum að horfa á það hvort við getum til að mynda gefið í hvað varðar félagslegt húsnæði fyrir fatlaða og öryrkja og bæta þar við fleiri úrræðum sem við höfum, þannig að já ég er að vonast til, með öllum þessum fjölþættu úrræðum sem við erum að vinna að, að við munum smátt og smátt ná tökum á þessu.“
Er þetta tímabært miðað við stöðuna á húsnæðismarkaðnum?
„Já, ég held að ef við reynum að meta hvenær hlutir eru tímabærir þá er þetta akkúrat tíminn fyrir hið opinbera að stíga inn og stuðla að frekari uppbyggingu. Á sama tíma þurfum við líka að gæta þess að reyna að ná niður verðbólgu og þar með vaxtastiginu þannig að hinn almenni byggingamarkaður taki við sér því að lykilatriðið er að auka framboð og búa til mun fleiri íbúðir, sérstaklega miðað við hvað okkur fjölgar hratt,“ svarar Sigurður Ingi.
Hann segir það vera algjört lykilmarkmið að ná jafnvægi á húsnæðismarkaðnum.
„Allt sem við höfum verið að gera, að fá þessa heildarsýn sem HMS hefur verið svo flinkt í að vinna að með húsnæðisáætlunum sveitarfélaga, mannvirkjaskrá og samningum við sveitarfélögin, þá erum við smátt og smátt að ná tökum í fyrsta skipti á þessum markaði.“
Ráðherrann greindi frá því á fundinum að reglugerð um hlutdeildarlán hefði í dag verið breytt til að auðvelda fólki íbúðarkaup. Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og standa til boða fyrir fyrstu kaupendur og þá sem ekki hafa átt íbúð síðastliðin fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum.
Meðal þess sem breytist er að hámarksverð íbúða hefur verið uppfært, verðflokkar sveitarfélaga endurskoðaðir og tekjumörk lántaka uppfærð.
„Þetta erum við að gera til þess að gera hlutdeildarlán samkeppnishæf á markaðnum,“ segir Sigurður.
Þá fór fram fyrri úthlutun ársins á stofnframlögum. Úthlutað var til byggingar á 286 nýjum leiguíbúðum fyrir tekju- og eignalága í sextán sveitarfélögum. 70% íbúðanna eru á höfuðborgarsvæðinu en 30% á landsbyggðinni.
Heildarfjárhæð framlaga ríkisins eru rúmlega þrír milljarðar króna og veita sveitarfélög tæplega 1,8 milljarða framlag á móti.
Stofnframlög eru veitt til uppbyggingar á hagkvæmum leiguíbúðum innan almenna íbúðakerfisins til að auka húsnæðisöryggi leigjenda og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna.
Sigurður Ingi segir fjölmargar aðgerðir fyrirhugaðar í þessum efnum.
Á fundinum fór hann yfir tíu atriði sem verið er að vinna að. Birtast þau meðal annars í frumvörpum, einföldun á regluverki, skilvirkari ferlum, styrkingu á stöðu leigjenda, húsnæðisbótum og fleiru.
„Það eru fjölmargir þættir sem við erum að vinna að og munum fara betur yfir á húsnæðisþingi sem verður haldið 30. ágúst. Fram að þeim tíma núna í júlímánuði og eitthvað inn í ágúst verður svokölluð hvítbók sem er stefna í húsnæðismálum í samráðsgátt. Eftir húsnæðisþingið munum við leggja fram þingsályktun um nýja húsnæðisstefnu, sem reyndar er sú fyrsta,“ segir ráðherrann.