„Við erum ekki verksmiðjur!“

Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara.
Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara.

Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, segist taka undir þá skoðun Gylfa Zoëga að stytting náms á framhaldsskólastigi, sem gerð var árið 2014, hafi verið vanhugsuð.

Guðjón vill þó árétta að styttingin hafi einungis beinst að námi til stúdentsprófs, og því ekki komið niður á verknámsbrautum. Á sínum tíma hafi ekki verið horft heildrænt á málið heldur eitt skólastig tekið út fyrir sviga og það stytt. Árið 2014 var ákveðið að stytta framhaldsnám úr fjórum árum í þrjú.

Rætt var við Gylfa í Morgunblaðinu í gær. Gylfi sagði að í rannsókn sem hann gerði með Gísla Gylfasyni, doktorsnema í París, og Tinnu Ásgeirsdóttur, prófessor í hagfræði, hafi komið í ljós að þegar þriggja og fjögurra ára stúdentar tóku sömu próf á fyrsta ári í Háskóla Íslands, skólaárið 2018-19 og haustið 2019, þá var meðaleinkunn þriggja ára stúdenta lægri, þeir luku færri einingum og brottfall í þeirra hópi var meira.

Ekki hrein stytting heldur samþjöppun

Guðjón segir að alls ekki hafi verið um hreina styttingu að ræða, heldur hafi meginhluta náms til stúdentsprófs verið þjappað saman á styttri tíma.

„Það þýðir mun meira álag fyrir marga nemendur. Þetta hefur komið niður á tómstundaiðkun, tónlistarnámi og iðkun íþrótta. Eins held ég að félagsþroski sé vanmetin stærð í þessu samhengi. Núna er verið að gera sérstakar námsleiðir inn í framhaldsskólunum fyrir tómstundirnar. Fólk hefði átt að geta sinnt þessu líka til hliðar við nám.“

Guðjón segir að ráðist hafi verið í styttinguna til að ná fram hagræðingu, án þess að hugsa frekar um afleiðingarnar. „Ég óttast að það sama sé í gangi núna þegar á að sameina framhaldsskóla. Markmiðið er að minnka ríkisútgjöld til framhaldsskóla og lítið hugsað út í afleiðingarnar. Alltaf er verið að hugsa út í hagstæðar rekstrareiningar, en skóli snýst um allt annað. Við erum ekki verksmiðjur!“

Hann er sömuleiðis mjög gagnrýninn á það hvernig styttingunni var komið á. Hún hafi ekki fengið þinglega meðferð á sínum tíma. Þá hafi verið komnir skólar sem buðu þriggja ára nám og að leiðir hafi verið færar innan sumra framhaldsskóla til þess að taka námið á styttri tíma.

„Það var gripið til aðgerða sem sumir hafa kallað ofbeldisaðgerðir, í stað þess að leyfa þessu að gerast með sjálfbærum hætti inni í skólunum.“

Guðjón telur þá líklegra að örþreyttir nemendur taki sér námshlé að stúdentsprófi loknu og því verði markmiðinu um að menntað fólk komi fyrr á vinnumarkað ekki náð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert