Ástin sveif yfir vötnum í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag

Mótorhjólahjónin Sólhildur Svava og Fróði innsigla hjónabandið með kossi.
Mótorhjólahjónin Sólhildur Svava og Fróði innsigla hjónabandið með kossi. mbl.is/Eyþór

Ástin og rómantíkin sveif yfir vötnum í Ráðhúsi Reykjavíkur fyrr í dag þegar Siðmennt - félag siðrænna húmanista á Íslandi stóð fyrir fjöldahjónavígslu í Tjarnarsalnum. Um var að ræða fyrstu hjónavígslurnar eftir að forsætisnefnd Reykjavíkurborgar samþykkti nýjar reglur um hjónavígslur í Ráðhúsinu.  

„Þetta fer þannig fram að hverju pari eru gefnar um 20 mínútur fyrir sína athöfn. Það tekur athafnarstjóri á móti parinu en parið sér sjálft um alla forvinnuna og mætir með tilskilda pappíra, vottorð og annað sem þarf. Því næst verður sungið og spilað rómantískt lag og athafnarstjórinn gefur parið saman en það er einn af okkar formlegu athafnarstjórum sem hefur leyfi til þess að gefa fólk saman. Síðan getur fólk skálað í freyðivíni eða óáfengu og farið í myndatöku og svo tekur í raun bara næsta par við,“ segir Eyjólfur Örn Snjólfsson, framkvæmdastjóri Siðmenntar.

Brúðhjónunum var boðið upp á freyðivín eftir athöfnina.
Brúðhjónunum var boðið upp á freyðivín eftir athöfnina. mbl.is/Eyþór

Þá segir Eyjólfur Siðmennt stefna að því að gera þetta að árlegum viðburði í Tjarnarsalnum og smám saman byggja upp vörumerki í kringum fjöldahjónavígslurnar.

„Það er æðislegt að vera hérna í salnum í Ráðhúsinu þar sem fólk hefur fallegt útsýni yfir Tjörnina. Það er líka gaman að geta boðið upp á aðeins hátíðlegri umgjörð en venjulega eins og þegar fólk kemur á skrifstofuna okkar til að láta gefa sig saman. Hérna fá pörin meiri umgjörð og það er virkilega góð stemning. Pörin geta fengið foreldra og vini með sér og gengið svo hér framhjá Tjörninni eftir athöfnina sem er ekki amalegt, sérstaklega í þessu frábæra veðri.“

Sonurinn eini gesturinn í brúðkaupinu

Þau Elsa Kristín Sigurðardóttir og Harry Williams voru ein af þeim sem mættu í Ráðhúsið í dag til að láta pússa sig saman en með þeim í för var sonur þeirra, hinn eins og hálfs árs gamli Siguróli. Aðspurð að því hvers vegna dagurinn í dag varð fyrir valinu sögðu þau tímasetninguna hafa hentað sér vel.

„Bæði tímasetningin og andi athafnarinnar passaði svo ótrúlega vel,“ sagði Elsa Kristín og bætti því við að þau væru búin að eiga ljúfa og góða stund í Ráðhúsinu. Þá völdu brúðhjónin lagið Love Me Tender sem sungið var í athöfninni af Brynhildi Björnsdóttur söngkonu en einnig var hægt að velja um lögin Ó, þú, Þú komst við hjartað í mér, Með þér, Kiss Me og Euphoria

Elsa Kristín, Harry og Siguróli.
Elsa Kristín, Harry og Siguróli. mbl.is/Eyþór

Þá sagðist Elsa Kristín vera á leið í vinnuna en fyrst þyrftu þau að láta fólk vita af brúðkaupinu. 

„Siguróli var eini gesturinn sem var viðstaddur athöfnina með okkur en við erum alveg að fara að láta alla vita. Ég er svo á leiðinni í vinnuna og Harry verður með hann en við ætlum að fagna almennilega seinna.“

Ætla út að borða til að fagna deginum

Þau Helgi og Emi nýttu tækifærið meðan Emi var á landinu til að láta gefa sig saman.

Helgi og Emi nýttu tækifærið til að gifta sig áður …
Helgi og Emi nýttu tækifærið til að gifta sig áður en Emi fer til Unverjalands. mbl.is/Eyþór

„Emi býr í Ungverjalandi svo þetta hentaði okkur vel þar sem hún er að fara aftur út í vikunni. Við erum með pantað borð seinni partinn svo við ætlum alla vega að fara út að borða til að fagna deginum,“ sagði Helgi áður en þau skáluðu við hvort annað.

Enginn áhugi fyrir kirkjubrúðkaupi

Sólhildur Svava Ottesen og Fróði Ársælsson mættu á mótorhjólunum sínum í Ráðhúsið og því voru hjálmarnir hafðir við höndina í athöfninni. Þá sögðu nýgiftu hjónin að ráðahagurinn hefði verið á dagskrá hjá þeim í tvö ár.

„Við vorum búin að ræða þetta oft og okkur langaði að láta gefa okkur saman í Ráðhúsinu og hjá Siðmennt en við höfðum ekki áhuga á kirkjubrúðkaupi.“

Þá voru hjónin ein á ferð þar sem fjölskyldan er risastór að þeirra sögn.

„Við eigum svo stóra fjölskyldu, eigum bæði sex systkini og við erum yngst þannig að þetta er alveg ótrúlegur fjöldi. Þetta var annað hvort allir eða enginn eða bara við tvö sem sagt.“

Nýgift og á leið í mótorhjólaferð.
Nýgift og á leið í mótorhjólaferð. mbl.is/Eyþór

Þá var svarið við spurningunni hvernig eyða ætti deginum mjög einfalt.

„Mótorhjólast. Fyrst erum við að fara að sækja eina dóttur á flugvöllinn og svo bara út að borða í kvöld,“ sagði Sólhildur og tók það sérstaklega fram að þau yrðu að sjálfsögðu spariklædd á hjólunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert