Atvinnu- og heimilislausir á einum degi

Sindri Vestfjörð, starfsmaður Hval hf, segir ákvörðun matvælaráðherra ófyrirgefanlega.
Sindri Vestfjörð, starfsmaður Hval hf, segir ákvörðun matvælaráðherra ófyrirgefanlega. Samsett mynd

Sindri Vestfjörð, starfsmaður Hvals hf., segir í samtali við mbl.is að hann þekki til sumra samstarfsmanna sinna sem sitji upp án atvinnu og án heimilis fyrir sumarið eftir ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að stöðva veiði á langreyðum fram til 31. ágúst.

Eins og greint hefur verið frá hefur ákvörðun Svandísar mætt þó nokkurri gagnrýni en Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður Verka­lýðsfé­lags Akra­ness, sagði til að mynda að ákvörðunin væri ófyrirgefanleg og að með þessari ákvörðun væri verið að svipta 120 félagsmenn í stéttarfélaginu tekjum. Um 200 manns starfa fyrir Hval hf. en þeir eru nú án atvinnu yfir sumarið. 

Beygla blaðið og henda út um gluggann

Sindri segir í samtali við mbl.is að þetta hafi mismunandi áhrif á starfsmenn fyrirtækisins og bendir á að ýmsir samstarfsfélagar hans hafi leigt út heimili sín yfir sumarið fyrir vertíðina þar sem starfsmenn eru á starfsstöðinni yfir allt sumarið undir venjulegum kringumstæðum.

„Ég veit um nokkra sem voru búnir að segja upp í vinnunni sinni og vinna upp uppsagnarfrestinn sinn og fá síðan að vita deginum eftir að þeir séu atvinnulausir. Þeir voru búnir að skella íbúðinni sinni í leigu svo þeir eru húsnæðislausir líka yfir sumartímann.“

Hann segir að þessi ákvörðun setji allt úr skorðum fyrir sig og fjölskyldu sína en þau voru búin að ráðstafa sumrinu með það fyrir augum að hann myndi vinna fram í september.

„Ég og eiginkona mín eigum tvö börn saman og þau eru búin að skipuleggja allt sem þau ætluðu að gera og bóka einhverjar ferðir sem að var alltaf gert ráð fyrir að þau væru bara þrjú í en núna er bara búið að beygla saman blaðið og henda því út um gluggann.“

Svandís eigi að afturkalla ákvörðunina eða segja af sér

Hann segir það ófyrirgefanlegt að ákvörðunin sé tekin með svo stuttum fyrirvara og bendir á að matvælaráðuneytið sé búið að hafa tíu mánuði til að meta stöðuna og taka ákvörðun. Eins og áður hefur verið greint frá gerði Matvælastofnun eftirlitsskýrslu um velferð hvala við veiðar á langreyðum á Íslandi á síðasta ári.

„Það að gera þetta núna korter í vertíð er gjörsamlega galið og óskiljanlegt. Að vera að taka einhverja svona pólitíska ákvörðun á milli flokka rétt áður en vertíðin byrjar. Það er mjög lítið verið að hugsa um litla manninn í þessari ákvörðun.

Þetta eru vinnubrögð sem ég hélt að væru ekki til. Ég vona að Svandís sjái að sér og afturkalli þessa ákvörðun eða hreinlega segi af sér því svona vinnubrögð eru ólíðandi og ómannúðleg.“

Hélt að það væri verið að ljúga að sér

Að sögn Sindra kom ákvörðunin að óvörum beint í flasið á starfsmönnum í gær sem voru margir mættir á starfsstöð til að sinna undirbúningi fyrir vertíðina sem átti að hefjast í dag.

„Menn voru byrjaðir að mæta þarna uppeftir og byrjaðir að vinna að undirbúningi og fyrir ekki neitt. Ég fékk að vita frá samstarfsfélaga af þessari frétt. Ég var alveg viss um að það væri verið að ljúga að mér. 

Nýbakaður faðir án tekna

Hann segir að um gífurlegt tekjutap sé að ræða fyrir fjölmarga og bendir á að launin hjá Hval hf. séu mjög góð fyrir vinnuna. Nú horfa flestir samstarfsfélagar Sindra upp á það að vera tekjulausir út sumarið. 

Hann tekur fram að þetta sé búið að leggjast mjög þungt á mannskapinn. 

„Ég veit um einn sem er nýbakaður faðir og á nokkra mánaða gamalt barn. Eins erfitt og það er að fara frá barninu á vertíð þá hefði þetta hjálpað honum svakalega fjárhagslega. Nú er nýbakaður faðir sem stendur atvinnulaus yfir sumartímann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert