Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segist ekki átta sig á því hvernig smásölu á áfengi sé betur borgið hjá ÁTVR en hjá almennum verslunareigendum með tilliti til lýðheilsu. Hvarvetna sé hægt að nálgast áfengi óháð rekstarfyrirkomulaginu og því sé vandséð hvers vegna ríkisrekstur sé heppilegur hvað þjónustuna varðar.
Þá sé frumvarp Jóns Gunnarssonar, fráfarandi dómsmálaráðherra um netsölu áfengis sem sett var á bið í ríkisstjórn ekki dautt og eigi meira erindi nú en þegar það var lagt fram í vetur.
Hann hefur skilning með þeim sem vilja áfengi fjarri matvöru í verslunum en það komi rekstarfyrirkomulagi ÁTVR ekki við. Þá sé Sjálfstæðisflokkur tilbúinn í heildrænar umræður um áfengismál líkt og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG lagði til í samtali við mbl.is. Ljóst sé að Sjálfstæðisflokkurinn muni tala fyrir auknu frelsi í málaflokknum.
„Þingmálið (um netverslun með áfengi) var vel undirbúið hjá dómsmálaráðherra þegar það kom fram og tók á þessum helstu álitamálum sem upp koma þegar vefverslun ryður sér til rúms. Það er svolítið óheppilegt að markaðsaðilar geti ekki leitað svara í löggjöfinni á málið átti að gera bragarbót á því,“ segir Bjarni.
En eins og fram hefur komið hafa m.a. matvöruverslanirnar Krónan og Hagkaup beðið áttekta eftir skýrum svörum með netsölu áfengis sem hefur viðgengist árum saman í umhverfi lagalegrar óvissu.
Bjarni segir að umræða um áfengismál almennt sé hins vegar stærri umræða. Sjálfstæðisflokkur hafi alla tíð talað við fyrir millivegi lýðheilsu og aðgengis að áfengi.
„Tímarnir hafa hins vegar breyst svo mikið. Svo dæmi sé tekið þá er ólíku saman að jafna að tala um áfengi í dag og fyrir einhverjum áratugum hvað vínveitingaleyfi varðar. Fyrir nokkrum áratugum voru þau ekki nema brot af því sem þau eru í dag. Nú er hægt að nálgast vínveitingar um allt land og með allt öðrum hætti en áður var,“ segir Bjarni.
Því séu tilraunir til að takmarka aðgengi með ríkisrekinni smásöluverslun á borð við ÁTVR barn síns tíma.
„Að mínu áliti er engin sérstök þörf fyrir ríkisrekstur á þjónustusviði sem þessu. Við getum áfram rætt um það með hvaða sniði svona verslanir reknar og hve lengi þeim haldið opnum. Hvað sem líður niðurstöðu þess hef ég aldrei skilið hvers vegna ætti að halda úti ríkisreknum verslunum með þessa þjónustu,“ segir Bjarni.
Bjarni segir að málið hafi ekki verið rætt sérstaklega í ríkisstjórninni eftir að umræða um áfengismál hófst að nýju með opnun netverslunar Costco. Það hafi hins vegar verið rætt þegar frumvarp fráfarandi dómsmálaráðherra, Jóns Gunnarssonar, um netverslun með áfengi var lagt fyrir ríkisstjórn í vetur. Vegna andstöðu VG og Framsóknar var málið sett í bið.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í samtali við mbl.is að hún teldi þörf á umræðu um málið á breiðum vettvangi en ekki einungis á forsendum smásala. Því hafi málið ekki fengið framgöngu í ríkisstjórn. Bjarni segir Sjálfstæðisflokk tilbúinn í þá umræðu.
„Frumvarpið frá dómsmálaráðherra um afmarkaða þætti þessarar umræðu var vel undirbúið og hefði þurft að fá umræðu þingsins. En telji menn að það þurfi að taka einhverja breiðari umræðu um þessi mál á sama tíma. Þá munum við nálgast málin úr frelsisátt. En ekki í þeim tilgangi að beita ríkisrekstrinum til að gera fólki erfitt fyrir að hafa aðgengi að vöru sem hvort sem er er aðgengileg um borg á bý á grundvelli vínveitingaleyfa,“ segir Bjarni.
Spurður hvort að tal um umræðu um breiða sátt í þjóðfélaginu um áfengismál muni ekki fyrirsjáanlega leiða til þess að málið festist í hjólförunum á sama tíma og netverslun með áfengi þrífst í umhverfi lagalegrar óvissu þá segir Bjarni að slíka sviðsmynd mögulega.
„Ég ætla ekkert að fullyrða neitt um það hvernig þessi umræða mun þróast. En það er ein möguleg sviðsmynd í ljósi þess hve illa hefur gengið að fá þessi mál rædd og fá þau til afgreiðslu á Alþingi í gegnum árin. Óháð því er verkefnið að gera það skýrt að lögum hvenær verið er að stunda smásölu sem ÁTVR hefur í lögum samkvæmt einokunarrétt á og hvenær verið er að stunda vefverslun,“ segir Bjarni.
Í hugum margra varð eðlismunur á aðgengi að áfengi þegar Costco bauð sína netverslun. Þannig geta viðskiptavinir klárað matvöruinnkaupin og rölt svo að afmörkuðu rými til að kaupa áfengi.
„Ég get vel skilið að sumum finnist að þetta sé vara sem ekki eigi heima innan um matvöru og ég get alveg borið virðingu fyrir því. En það breytir því ekki að ég sé ekki ástæðu til að draga mörkin þannig að ávallt þurfi að vera ríkisrekstur með áfengi. Þarna er einfaldlega um að ræða mál sem betur hefði verið rætt á þinginu og afgreitt. En það hefur ávallt reynst þinginu erfitt að ræða mál sem þessi,“ segir Bjarni.
Er frumvarp fráfarandi ráðherra um tilhögun netverslunar með áfengi dautt í núverandi mynd?
„Nei ég ætla ekkert að fullyrða um það. Ég held að fleiri hafi séð núna að það er mikilvægt að þetta mál fái afgreiðslu. Ég held að það sé meiri þörf fyrir þetta mál heldur en þegar það kom fyrst fram ef eitthvað er,“ segir Bjarni.
„En svo er ágætt að taka fram að ég sé ekki þörf fyrir ríkisrekstur á þessu sviði til að við náum markmiðum um lýðheilsu og önnur markmið sem að fylgja lögum um að fara beri með aðgát þegar um áfengi er að ræða. Öllum þeim markmiðum er hægt að ná. Án þess að vera með ríkisrekstur þar að baki,“ segir Bjarni.