Bíða enn eftir að fá staðfesta skólavist

Svanur Jón Norðkvist hefur ekki enn fengið inngöngu í framhaldsskóla …
Svanur Jón Norðkvist hefur ekki enn fengið inngöngu í framhaldsskóla í haust. Ljósmynd/Aðsend

Svanur Jón Norðkvist útskrifaðist nýverið úr 10. bekk í Arnarskóla og er einn þriggja nýútskrifaðra nemenda skólans sem bíða enn eftir því að fá staðfesta skólavist í framhaldsskóla í haust. Harpa Þórisdóttir, móðir Svans, er orðin þreytt á biðinni eftir svörum.

Arnarskóli er sérskóli fyrir börn með fötlun sem þurfa mjög mikinn stuðning.

Harpa segir fjölskyldunni aldrei hafa borist formlegt bréf um stöðu mála hjá Svani, en í febrúar sótti hann um skólavist í Tækniskólanum. Hún segir að þau hafi frétt af höfnun Tækniskólans í gegnum Arnarskóla.

Hvorugur fékk inngöngu

Eftir að hafa fylgt ráðleggingu Arnarskóla og farið á kynningu ásamt samnemenda sínum sótti Svanur um skólavist í Tækniskólanum. Harpa segir að henni hafi verið tjáð að einungis hafi verið eitt pláss laust á haustönn skólans, en úr varð að hvorki Svanur né hinn nemandinn fengu inngöngu.

Harpa segir að þegar Steinunn Hafsteinsdóttir, fagstjóri í Arnarskóla, hafi hringt í Menntamálastofnun fyrir hönd fjölskyldu Svans hafi þeim verið ráðlagt að sækja ekki um í annað val fyrir Svan. Því hafi það verið talsverð vonbrigði þegar þeim bárust þær fréttir að hann fengi ekki skólavist í Tækniskólanum.

„Þau sögðust ætla að finna úrræði sem hentaði honum best og ég treysti þeim,“ segir Harpa sem hringt hefur í Menntamálastofnun og menntamálaráðuneytið í leit að svörum án árangurs. 

Mikilvægi rútínu og þjálfunar

Að sögn Hörpu skiptir það miklu máli, bæði fyrir Svan og þá sem standa honum næst, að hann fái staðfesta skólavist fljótlega og að hann geti hafið nám í framhaldsskóla í haust. Svanur er er með flókna fötlun og þarf á miklum stuðningi að halda.

„Það skiptir gífurlegu máli að hann sé virkur og í rútínu og þjálfun. Þetta er svo mikilvægt til þess að allir fúnkeri, bæði fjölskyldan og barnið. Efir því sem fötlunin er meiri, því mikilvægara er það að börnin hafi einhver úrræði,“ segir Harpa sem vonast til þess að lausn finnist við máli Svans sem allra fyrst. 

Fleiri nemendur bíða svara

Af þeim fjórum nemendum sem útskrifuðust nýverið úr 10. bekk í Arnarskóla bíða þrír enn eftir plássi í framhaldsskóla í haust. Sá nemandi sem hlaut skólavist fékk pláss þann 27. apríl en hinir hafa ekkert heyrt.

Steinunn Hafsteinsdóttir, fagstjóri í Arnarskóla, segir það mikið áhyggjuefni að óvissa ríki um skólavist barnanna þriggja sem öll fengu höfnun frá þeim skólum sem þau sóttu um. Hún segir helsta áhyggjuefnið vera aðlögunartíma barnanna.

Steinunn Hafsteinsdóttir
Steinunn Hafsteinsdóttir Ljósmynd/Aðsend

„Krakkarnir þurfa mikla aðlögun og það þarf fyrirvara til þess að geta kennt nýju starfsfólki hvernig best sé að vinna með þeim,“ segir Steinunn. „Þegar svörin koma svona seint er búið að taka tímann frá okkur sem við hefðum getað nýtt í aðlögun,“ segir Steinunn, sem bendir á að erfitt sé að hefja samstarf með framhaldsskólum þegar liðið er á sumarið og skólarnir eru farnir í sumarfrí. 

Hvað er til ráða?

Steinunn segir það ekki nýtilkomið að börn með fötlun þurfi að bíða lengi eftir svörum um framhaldsskólavist. 

„Það virðist gerast ár eftir ár að einhverjir fái ekki skóla við hæfi fyrr en rétt áður en skólinn byrjar,“ segir Steinunn sem útskýrir að þá verði aðlögunin ekki eins og best verður á kosið.

Hún telur að huga þurfi betur að samskiptum milli grunnskóla og menntamálastofnunar svo hægt sé að staðfesta skólavist barnanna fyrr. Oft og tíðum þurfi börnin mikinn stuðning og ætti því að vera ljóst að þau þurfi á sérstökum úrræðum að halda löngu áður en sækja á um í framhaldsskóla.

Ásamt því að börnum með fötlun sé veittur tími til aðlögunar þegar komið er í framhaldsskóla, segir Steinunn að skólavist í framhaldsskóla sé einnig gríðarlega mikilvæg fyrir öryggi barnanna sjálfra og fjölskyldur þeirra, því sum börnin geti einfaldlega ekki verið heima hjá sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert