Bíósýningar hefjast aftur í Tónabíó

Endurbætur hafa verið gerðar á húsnæði Tónabíós í Skipholti.
Endurbætur hafa verið gerðar á húsnæði Tónabíós í Skipholti. mbl.is/Árni Sæberg

Til stendur að bíósýningar hefjist að nýju í Tónabíó í Skipholti síðar á árinu í fyrsta sinn í meira en þrjá áratugi. 

Fyrst opnar ný bruggstofa RVK Bruggfélags í húsinu síðar í sumar og er innrétting hennar komin vel á veg. Beðið er eftir úttektum og leyfisveitingum áður en hægt verður að opna stofuna.

Eftir að Tónabíó lagði upp laupana á níunda áratugnum tók Vinabær við og þar voru haldin bingó í 30 ár, eða allt þar til í byrjun síðasta árs. Núna hefur nafnið Tónabíó aftur verið tekið upp af nýjum rekstraraðilum.  

Básar í stað bíósæta

Að sögn Sigurðar P. Snorrasonar, framkvæmdastjóra RVK Bruggfélags/Vandaðs ehf. og eins af forsvarsmönnum Tónabíós, verður ýmiss konar starfsemi í gamla bíósal hússins. Búið er að breyta salnum töluvert og eru komnir básar í stað bíósæta til að hægt sé að spila þar bingó.

Salurinn verður notaður fyrir alls konar viðburði.
Salurinn verður notaður fyrir alls konar viðburði. mbl.is/Árni Sæberg

Ætlunin er að salurinn verði framvegis notaður fyrir tónlist, uppistand, ráðstefnur, bíósýningar og líklega bingó í einhverri mynd. Sem stendur hentar hann þó ekki vel fyrir leiklist en gæti þó tekið yfir eitthvað af þeim viðburðum sem fara núna fram í Tjarnarbíói.

Áætlað er að salurinn taki upp undir 300 manns ef öllum borðum er sleppt og sætaraðir settar þangað inn, segir Sigurður og bætir við að fregnir af andláti Tónabíós séu stórlega ýktar. Á hann þar við frétt mbl.is um brotthvarf bíóhúsa úr Reykjavík, þar á meðal Tónabíós.

„Þetta verður glæsilegt hús og ég finn fyrir miklum spenningi meðal þeirra sem hafa komið í heimsókn eða hafa frétt af þessum áformum okkar,“ segir hann.

Sigurður P. Snorrason í nýju bruggstofunni.
Sigurður P. Snorrason í nýju bruggstofunni. mbl.is/Árni Sæberg

Költ- og klassískar myndir

Spurður nánar út í bíósýningarnar nefnir Sigurður að búið sé að minnka bíótjaldið talsvert frá því sem var upphaflega.

„Bíósýningar eru ekki aðalmálið [í salnum] en við munum leitast við að vera með einhvers konar költ-myndir, klassískar myndir og jafnvel myndir þar sem leikstjórar koma og tala um myndirnar sínar,“ segir hann og tekur fram að búið sé að taka húsið sjálft verulega í gegn að utan. „Það er orðið stórglæsilegt og allt öðruvísi en af gömlu myndunum frá tímum Vinabæjar,“ segir hann.

Bruggstofa RVK Bruggfélags í Tónabíó.
Bruggstofa RVK Bruggfélags í Tónabíó. Árni Sæberg

Fyrsta kvikmyndin sem var sýnd í Tónabíó var Some Like It Hot, eða Enginn er fullkominn, 23. apríl 1962. Síðasta kvikmyndaauglýsing bíósins birtist aftur á móti 30. maí 1987 þegar hryllingsmyndin April Fool's Day var auglýst. 

Mynd/Tímarit.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert