Dorrit og Samson æddu upp Esjuna

Þau Micah Garen, Dorrit Moussaieff, Anahita Babaei og Samson gerðu …
Þau Micah Garen, Dorrit Moussaieff, Anahita Babaei og Samson gerðu sér glaðan dag á Esjunni í dag. mbl.is/Mist

Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú Íslands, gekk á Esjuna í dag ásamt hundi sínum Samson og tveimur kunningjum þeirra. mbl.is náði tali af Dorrit í Esjunni og spurði hana stuttlega um afstöðu sína til hvalveiðihlésins. 

Það var blíðskaparveður þegar blaðamaður kom auga á glaðlega Dorrit gangandi niður að Esjurótum. Við hlið hennar voru þau Micah Garen og Anahita Babaei, kvikmyndatökumenn, sem stödd eru hér á landi við gerð heimildamyndar um hvalveiðar. 

Hundurinn Samson var skammt undan, en að sögn Dorritar fór hann létt með gönguna. 

Ánægð með fréttir gærdagsins

Spurð um afstöðu sína gagnvart hvalveiðihléinu sem tók gildi í gær segist Dorrit vera ánægð með þróun mála.

Hún tekur fram að sjálf sé hún ekki sérfræðingur í þessum málaflokki. Þá segir hún eina áhyggjuefni sitt vera þau áhrif sem hléið kunni að hafa á starfsfólk innan hvalveiðageirans.

„Ég vona þó að aukin umsvif ferðamannaiðnaðarins á Íslandi komi til með að bjóða upp á fleiri störf,“ segir Dorrit sem er umhugað um velferð hvalanna. 

Hvalir séu tilfinningaverur

Dorrit veltir vöngum yfir því hvernig réttlæta eigi hvalveiðar. 

„Af hverju ættum við að drepa skepnu sem gerir engum mein og þjónar mikilvægu hlutverki í lífríkinu?“ segir Dorrit, en fjöldi hvalategunda er í útrýmingarhættu. 

Hún segir það ómannúðlegt að það taki tvær klukkustundir að drepa hvali sem séu dýr sem búa yfir tilfinningum. Ef slík aðferð sé sú eina sem hægt er að nota til að farga hvölum ætti heldur að sleppa því.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert