Ekki sláandi fjölgun manndrápa

Að sögn Snorra Arnar er ekki ástæða til að óttast …
Að sögn Snorra Arnar er ekki ástæða til að óttast fjölgun manndrápa á Íslandi. Samsett mynd

Sjö manndráp hafa orðið á Íslandi á rétt rúmu ári. Manndrápum hefur ekki fjölgað sérlega mikið ef litið er til síðustu ára og fólksfjölgunar hér á landi að mati Margrétar Valdimarsdóttur, dósents í félagsfræði sem ræddi við Rúv í gær. Sérfræðingur hjá Ríkislögreglustjóra er sammála hennar mati og segir að gæta verði þess að ekki grípi um sig óþarfa hræðsla í samfélaginu.

„Ef við tökum bara manndrápin sjö á síðastliðnu ári sérstaklega er nauðsynlegt að setja þessar tölur í eitthvað samhengi. Þegar koma fleiri manndráp eitt árið að þá geta skapast sveiflur á milli ára, kannski eitt manndráp eitt árið og fjögur manndráp það næsta. Þegar þetta gerist þá vaknar stundum sú tilhneiging hjá okkur að túlka það sem sláandi fjölgun. Þannig að við verðum alltaf að passa okkur á að setja þessar tölur í eitthvert samhengi og skoða lengra tímabil til að átta okkur á hvort þessar sveiflur séu komnar til að vera og séu óvenjulegar,“ segir Snorri Örn Árnason, sérfræðingur hjá Ríkislögreglustjóra og aðjúnkt við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. 

Fjölgun milli ára varla marktæk

Snorri telur ekki nóg að skoða einungis tölur síðustu fimm ára heldur verði líka að taka fólksfjölgun á milli ára inn í myndina.

„Ef við tökum þetta allt inn í myndina núna að þá sjáum við sáralitlar breytingar ef einhverjar á tíðni manndrápa samanborið við síðustu ár. Við erum auðvitað ekki komin með endanlegar tölur fyrir þetta ár og þetta fer kannski ekki nægilega vel af stað en það verður í rauninni bara að koma í ljós hvernig það endar.“

Þá segir Snorri fjölgun manndrápa hér á landi síðastliðin tíu ár mjög væga og varla marktæka. 

„Ef við berum saman meðaltal síðustu fimm ára, á árunum 2013-2017, er í raun um hverfandi fjölgun að ræða en ef við tökum fimm ár þar á undan, árin 2008-2012, getum við talað um væga fjölgun manndrápa. Hún er eiginlega of lítil til að geta verið túlkuð sem eðlisleg fjölgun miðað við mannfjölda.“

Tíðni manndrápa lág miðað við nágrannalöndin

Að sögn Snorra er ekki ástæða til að óttast og lítur hann í því samhengi sérstaklega til landanna í kringum okkur.

„Það er nauðsynlegt að skoða þetta í samhengi við önnur lönd. Nærtækast er að bera sig saman við Norðurlöndin en sé það gert þá erum við að jafnaði í lægri kantinum hér á Íslandi miðað við höfðatölu. Ef við berum okkur saman við Svíþjóð, Danmörku, Noreg og Finnland þá er tíðni manndrápa á Íslandi oftast nær í neðri kantinum.“

Eðli brota hér á landi annars eðlis

Þá segir Snorri nauðsynlegt að skoða eðli brotanna en hér á landi séu þau oft annars eðlis en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Ef horft sé á þróunina í þessu ljósi sé ekki ástæða til að bregðast við með ótta núna frekar en fyrri daginn.

„Við erum kannski ekki að sjá neinar sláandi eðlisbreytingar á þessum brotum á Íslandi. Oftast nær eru tengsl á milli aðila í þessum málum, oft eru þetta fjölskyldu- og kunningjatengsl sem eru í raun tengd mannlegum harmleik eða ógæfu. Ekki eitthvað sem við myndum þurfa að hafa áhyggjur af sérstaklega eins og við sjáum annars staðar þar sem er mikið um manndráp með skotvopnum í tengslum við klíkustríð og þess háttar.“

Vopnaburður ungmenna áhyggjuefni

Aðspurður um aukinn vopnaburð ungmenna segir Snorri þá þróun kalla á aukna fræðslu og samstöðu.

„Við höfum einmitt merkt væga breytingu hvað þetta varðar og aðeins verið að sjá fleiri haldlagningar á hnífum og afskipti vegna hnífaburðar en ég þori ekki að fullyrða að það sé mjög sláandi. Þetta er samt eitthvað sem lögreglan hefur undir sinni smásjá og vill fylgjast vel með því þetta er auðvitað mjög slæm þróun því það þarf svo lítið ef til átaka kemur að þeim sé beitt. Ef fólk er vel vopnað er alltaf meiri hætta á alvarlegri útkomu úr átökum en það er vissulega áhyggjuefni.“

Forvarnir og fræðsla lykillinn

Snorri segir nauðsynlegt að staldra við og líta slíka þróun, sé hún til staðar, alvarlegum augum. 

„Þar eru forvarnir og fræðsla um alvarleikann lykillinn en ég held að stofnanir samfélagsins þurfi að taka sig saman um það að grípa inn í. Við viljum auðvitað ekki sjá slíka þróun eiga sér stað.“

Þá segir Snorri meðvitund almennings, líkt og Margrét bendir á, mikið bundna við fréttaflutning og þá hafi almenningur ekki yfirsýn yfir tölfræðina sem setur hlutina að hans mati í rétt samhengi.

„Það er alltaf þessi tilhneiging til að grípa andann á lofti og fyllast ótta við það að sjá fyrisagnir þar sem verið er að slá upp að manndrápum sé að fjölga en við verðum að fara mjög varlega í þá umræðu því hún vekur kannski upp óþarfa ótta og óöryggi hjá fólki en það er engin ástæða til þess. Þróunin er slík að við erum ekki að sjá neinar sláandi breytingar eða sveiflur í þessu svo þetta er kannski ofmetið af almenningi því það dregur sínar ályktanir mikið út frá fréttaflutningi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka