Færri rúmum lokað á Landspítalanum

Minni skerðing á þjónustu verður í sumar en undanfarin sumur …
Minni skerðing á þjónustu verður í sumar en undanfarin sumur en um 94% allra sjúkrarúma spítalans verða að jafnaði til reiðu. mbl.is/Unnur Karen

Litlar lokanir verða á Landspítalanum í sumar og minni skerðing á þjónustu en undanfarin sumur, að sögn Andra Ólafssonar, upplýsingafulltrúa spítalans.

Segir Andri að 94% allra sjúkra­rúma spítalans verði að jafnaði opin í sumar, eða 591 rúm, og á það við um tímabilið 29. maí til 28. ágúst. Þetta segir hann vera meiri starfsemi en sumarið 2022 þegar 89% sjúkrarúma, eða 582 rúm, voru skilgreind opin að meðaltali. Þess beri þó að geta að tíðar innlagnir á deildum og breytingar í starfsemi skekki samanburðinn.

Ástæður rúmalokana í sumar segir hann vera árstíðarbundinn samdrátt í starfsemi spítalans, en ljóst sé að það verði áskorun að halda uppi starfseminni vegna manneklu víða.

Andri segir að 6% sjúkrarúma, eða 38 rúm, verði að jafnaði lokuð í sumar sem dreifist nokkuð jafnt yfir sumarið. Mestar verði lokanirnar síðustu tvær vikurnar í júlí og fram yfir verslunarmannahelgi. Þá er gert ráð fyrir að 65 sjúkrarúm verði lokuð sem er 10,3% rúma spítalans, en júlí í fyrra stóðu tæp 15% þeirra auð, eða 94 til 96 sjúkrarúm.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert