Fimm hvalategundir taldar í bráðri hættu

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Ægisson

Fimm hvalategundir eru taldir í bráðri hættu á aldauða af þeim 93 tegundum sem er skráðar hjá Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN). Það þýðir að eindregnar líkur eru á að viðkomandi tegundir deyi út í náinni framtíð. Að auki eru tólf tegundir í útrýmingarhættu.

Þetta kemur fram í svari Jón Már Halldórssonar líffræðings við fyrirspurn inn á Vísindavefnum.

Mögulega útdauður nú þegar

Þar kemur fram að af þeim fimm tegundum sem eru taldir í bráðri hættu er staða hvítdólpungsins í Yangtzee-fljótinu í Kína alvarlegust og að hann sé mögulega nú þegar útdauður. Síðasta staðfesta tilvikið þar sem sást til hvítdólpungsins var árið 2002. 

Ástæða bágrar stöðu tegundarinnar er vegna fiskiveiða í fljótinu og vegna árekstra gríðarlegrar bátaumferðar og stíflugerðar. 

Ísland á hlut að máli

Sléttbakurinn sem áður var algengur gestur við strendur Íslands og útbreiddur um Norður-Atlantshafið er nú orðinn afar fágætur. Ísland á sinn hlut í að hvalurinn er nánast útdauður en ofveiði yfir margar aldir setti sitt strik á stofn tegundarinnar. 

Hann finnst nær einungis við austurströnd Norður Ameríku og suðurodda Grænlands. Áætlað er að aðeins 350 hvalir af tegundinni séu eftir í heiminum. Sléttbakurinn hefur verið friðaður frá fjórða áratug síðustu aldar en helsta dánarorsök hvalsins í dag er vegna árekstra við skip eða vegna þess að þeir festast í veiðarfærum á hafi úti.

Um 10% eftir af tegundinni eftir 18 ár

Staða hinnar smávöxnu dverghnísu er einnig mjög alvarleg en árið 1997 var talið út frá stofnstærðarrannsóknum að 567 dverghnísur væru eftir en árið 2015 var sú tala komin niður í 59 dverghnísur. Á síðasta ári var það mat vísindamanna að aðeins tíu dverghnísur væru enn eftir. 

Nýjasta tegundin á lista IUCN er rice-hvalurinn en hann var skilgreindur sem sérstök tegund árið 2021 en hafði áður verið talin deilitegund bryde-hvalsins. Áætlað er að aðeins 50 rice-hvalir séu eftir og samkvæmt mati IUCN eru fullorðin dýr innan við 30.

Rice-hvalurinn lifir á mjög takmörkuðu svæði í norðaustanverðum Mexíkóflóa. Olíuvinnsla á svæðinu og olíumengunin sem fylgir því er það helsta sem ógnar tilvist hvalsins. 

Hnúðtanni stendur betur en aðrar tegundir

Hnúðtanni er fimmta tegundin sem talin er vera í mikilli útrýmingarhættu samkvæmt IUCN en hún stendur þó mun betur en fjórar áðurnefndar tegundir. Vísindamenn telja að heildarstofnstærðin sé innan við þrjú þúsund dýr og að fullorðin dýr séu um eða innan við 1.500 dýr.

Hvalinn er að finna á afmörkuðum svæðum undan ströndum vesturhluta Afríku. Talið er að hnignun tegundarinnar sé að miklum hluta vegna netaveiða þar sem dýrin flækjast í veiðafæri.

Að því sem kemur fram í nýjasta mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á spenndýrum, samkvæmt viðmiðum IUCN, frá árinu 2018 er hrefna og langreyður ekki talin í útrýmingarhættu, en það eru þær tvær hvalategundir sem hafa verið veiddar hér við land undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert