Finna ekki þann sem stakk íslenska konu

Lundur í Svíþjóð er huggulegur bær og hefur þar löngum …
Lundur í Svíþjóð er huggulegur bær og hefur þar löngum verið mikið Íslendingasamfélag auk þess sem fjöldi íslenskra lækna hefur sótt þangað menntun. Ljósmynd/Wikipedia.org/Anton Holmquist Soasta

Lögreglan í Lundi í Svíþjóð virðist engu nær um það hver gekk næst lífi íslenskrar konu þar í bænum í maí með eggvopni í hverfinu Östre Torn. Konan var lögð inn á sjúkrahús með alvarlega áverka eins og sænskir og íslenskir fjölmiðlar hafa greint frá.

„Ég get ekki sagt þér neitt vegna rannsóknarhagsmuna, viljirðu kæra þá ákvörðun lögreglunnar skal ég leiðbeina þér um kæruleiðir,“ segir rannsóknarlögreglukonan, sem fer með málið hjá lögreglunni í Lundi, í tölvupósti til mbl.is.

Sama dag og konan var stungin var maður handtekinn en honum sleppt daginn eftir þar sem hann var ekki talinn tengjast árásinni.

Hefur lögreglan í Lundi varist allra frétta síðan og vísað símtölum fram og til baka til varðstjóra og rannsóknarlögreglumanna sem kannast æ minna við málið eftir því sem símtölin verða fleiri.

Rannsóknarlögreglukona spyr blaðamann hvort hann vilji kæra þá ákvörðun lögreglunnar að tjá sig ekki um málið. Áður hafði annar rannsakandi tjáð mbl.is að málið væri í biðstöðu og enginn grunaður. Nokkrum dögum eftir árásina, 23. maí, sagði upplýsingafulltrúi suðurumdæmis sænsku lögreglunnar að saksóknari hefði vísað málinu aftur til lögreglunnar þar sem upphaflegum grunaða hefði verið sleppt úr haldi.

Þegja þunnu hljóði

„Við getum ekki sagt þér meira um þetta mál eins og er,“ sagði upplýsingafulltrúinn í símtali við mbl.is.

Rannsóknarlögreglukonan býður ekki önnur svör en að leiðbeina um kæruleiðir. Spurði mbl.is hana tveggja spurninga að auki:

„Fara alvarleg líkamsárásarmál þar sem erlendir ríkisborgarar eru fórnarlömb aftast í röðina hjá sænsku lögreglunni?“

„Hvað segðirðu ef ég hefði samband við sænska dómsmálaráðuneytið og spyrði hvers vegna lögreglan í Lundi sinnti ekki vinnunni sinni og neitaði að svara spurningum fjölmiðla um stórfellda líkamsárás á erlendan ríkisborgara?“

Hvorugri spurningunni hefur verið svarað enn sem komið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert