Ísland heillaði og hjólar nú 956 km um Vestfirði

Peter Holm hóf störf sem flugmaður hjá Icelandair árið 2016.
Peter Holm hóf störf sem flugmaður hjá Icelandair árið 2016. Ljósmynd/Aðsend

Peter Holm, flugmaður hjá Icelandair, hyggst hjóla 956 kílómetra í næstu viku, en hann er einn þátttakanda Westfjords Way Challenge hjólreiðakeppninnar sem fram fer dagana 27. júní til 2. júlí. Þetta er lengsta vegalengd sem Peter hefur hjólað en markmið hans eru að klára keppnina og hafa gaman.  

Kolféll fyrir Íslandi

Peter, sem er sænskur, skiptir tíma sínum á milli Malmö og Keflavíkur. Hann segist hafa kolfallið fyrir Íslandi eftir að hann byrjaði að fljúga með Icelandair. Þá segist hann vera sérstaklega hrifinn af smæð samfélagsins á Íslandi og þeirri náttúru sem landið hefur upp á að bjóða.

„Á Íslandi sameinast fólk með ákveðnum hætti, sem á sér ekki hliðstæðu í flestum öðrum löndum,“ segir Peter. 

Snéri sér að hjólreiðum í kjölfar hnémeiðsla

Hjólreiðar hafa ekki alltaf verið helsta áhugamál Peter, en áður en hann setti á sig hjálminn var hann mikill hlaupagarpur. 

Peter tekur þátt í hjólreiðakeppninni Westfjords Way Challenge sem fram …
Peter tekur þátt í hjólreiðakeppninni Westfjords Way Challenge sem fram fer í næstu viku. Ljósmynd/Aðsend

„Þangað til árið 2015 hljóp ég ultramaraþon og fjallamaraþon. Ég neitaði í raun að viðurkenna það fyrir sjálfum mér að ég væri að glíma við meiðsli í hnénu.

Ég fór í aðgerð á hnénu og gat síðar ekki hlaupið – en ég get hjólað,“ segir Peter, sem hefur æft af miklum krafti í undirbúningi fyrir hjólreiðakeppnina sem fer fram í annað sinn í næstu viku. 

„Fjórar árstíðir á einni klukkustund“

Peter segist vel í stakk búinn til þess að takast á við þá tæpu þúsund kílómetra sem bíða hans á Vestfjörðum í næstu viku. Hann hefur ekki áhyggjur af veðurfarinu sem landið kann að hafa upp á að bjóða því hann sé öllu vanur eftir að hafa flogið um Íslandsstrendur undanfarin ár. 

„Sem flugmaður hjá Icelandair kemst maður í kynni við allskonar veður sem er síbreytilegt. Þú getur upplifað fjórar árstíðir á einni klukkustund,“ segir Peter og hlær við. 

Hann hlakkar til keppninnar og segir meginmarkmiðið vera að komast á leiðarenda og hafa gaman. „Þetta reddast,“ segir Peter loks glaður í bragði. 

Samtals eru 80 keppendur frá 20 löndum skráðir í keppnina í þetta skiptið, en fyrsta dagleið hefst á Ísafirði og er hjólað djúpið og yfir Steingrímsfjarðarheiði. Þá gefst til viðbótar 100 hjólurum kostur á að taka þátt í síðustu dagleiðinni, en hún hefst á Patreksfirði 2. júlí, en lagt er af stað á miðnætti og hjólað á Ísafjörð, meðal annars með því að fara um Svalvoga og um gamla veginn yfir Breiðdalsheiði. Hægt er að fræðast meira um hjólreiðar á Vestfjörðum og keppnina sjálfa hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert