Utanríkisráðuneytið segir að engar fregnir hafi borist af því að Íslendingar séu meðal hinna slösuðu í sprengingunni sem varð í miðborg Parísar í dag. 37 slösuðust og þar af fjórir alvarlega.
Ráðuneytið setti út tilkynningu í kvöld þar sem Íslendingar í París eru hvattir til að láta aðstandendur vita af afdrifum sínum. Eins eigi þeir sem sem þurfa á frekari aðstoð að halda vegna atburðarins að leita til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins.
Áslaug Karen Jóhannsdóttir, sem starfar hjá utanríkisráðuneytinu, sagði samtali við mbl.is að slíkar tilkynningar væru vanalega sendar út, þegar atburðir af þessum toga verða þar sem vænta má að margir Íslendingar séu á ferð.
Hún staðfesti að ráðuneytið hafi engar fréttir fengið af Íslendingum sem hafi slasast vegna sprengingarinnar.