„Komið algjörlega gott“

Guðbjörg Pálsdóttir segir réttlætið hafa náð fram að ganga.
Guðbjörg Pálsdóttir segir réttlætið hafa náð fram að ganga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er komið algjörlega gott,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, um mál sem höfðað var gegn Steinu Árnadóttur, hjúkrunarfræðingi á geðdeild LSH. Var hún sýknuð af ákæru um manndráp fyrr í dag og segist Guðbjörg vona að dómurinn boði bjartari tíma.

Í samtali mbl.is við Guðbjörgu kemur fram að málið hafi valdið hjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki miklu hugarangri.

„Það þarf eitthvað afdrifaríkt að gerast ef það á að halda fólkinu hérna við störf í heilbrigðiskerfinu,“ segir hún og bætir við: „Hér er búið að valda óbætanlegu tjóni. Farið er í manneskjuna en ekki efnið og núna þarf að láta staðar numið. Þetta er komið algjörlega gott.“

Réttlætið náði fram að ganga

Hún talar um að með dóminum hafi réttlætið náð fram að ganga.

„Það kom aldrei neitt annað til greina en að niðurstaðan yrði þessi.“

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi hinnar ákærðu.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi hinnar ákærðu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svipað er hljóðið í verjanda Steinu, Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni. „Þetta er í samræmi við það sem við höfum byggt á í málinu, samræmi við afstöðu umbjóðenda míns til sakarefnisins frá fyrstu stundu. Framburður hennar hefur verið staðfastur og trúverðugur. Af því leiðir þessi niðurstaða, sem er rétt,“ segir hann.

Fjögurra vikna áfrýjunarfrestur

Ákæruvaldið hefur nú fjögurra vikna frest til að áfrýja málinu en saksóknari í málinu, Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, hefur kosið að tjá sig ekki að svo stöddu. Þá kemur ekki fram hvort málinu verði áfrýjað en Vilhjálmur segist ekki sjá ástæðu til þess.

„Þetta er vandaður og vel rökstuddur dómur og að mínu mati á ekki að áfrýja þessu máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert