„Það er stoltur bæjarstjóri sem getur sagt að árangur er framar björtustu vonum,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, í samtali við Morgunblaðið. Nemendur í 1. og 2. bekk í Grunnskóla Vestmannaeyja (GRV) voru að klára sitt annað ár í rannsóknar- og þróunarverkefninu Kveikjum neistann. „LÆS“ er prófið sem notað er í skólanum sem metur hvort barn telst læst við lok 2. bekkjar. 83% nemenda í 2. bekk GRV voru læs við lok skólaárs.
Prófið var lagt fyrir 498 nemendur í 20 grunnskólum víðs vegar um landið í maí til að mæla muninn á þeim sem hafa verið í verkefninu og þeim sem hafa það ekki.
Niðurstaðan er sú að 52% barna úr þátttökuskólum annars staðar á landinu teljast læs samkvæmt mælitæki LÆS-prófsins. Benda því niðurstöður til þess að nemendur í GRV séu með betri lesskilning en b-börn sem tóku prófið í öðrum skólum.
Íris segir það klárt mál að fyrstu tvö ár verkefnisins sýni að það var rétt ákvörðun að taka þátt í því. „Kennararnir sem eru í verkefninu hafa staðið sig frábærlega og það smitast út í samfélagið og til foreldra. Ég get ekki heyrt annað en að foreldrar séu ánægðir enda ekki annað hægt ef barninu þínu líður vel í skóla og árangur næst í náminu,“ segir hún og bætir við að hún efist ekki um að fleiri sveitarfélög kynni sér verkefnið.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag