„Þetta yrði sennilega elsti íbúinn í Reykjavík,“ segir Jón Halldór Jónasson, sem situr í stýrihópi Reykjavíkurborgar sem var settur saman vegna mögulegrar komu risaeðlubeina til landsins.
Að hans sögn bíður hópurinn enn þá frekari upplýsinga um kostnað og tæknileg atriði er varða varðveislu og sýningu beina úr risaeðlu áður en hægt sé að taka ákvörðun um hvar risaeðlan verður til sýnis.
Eins og áður hefur verið greint frá hefur Marcus Eriksen, framkvæmdastjóri Leap Lab, fundið þríhyrnu í Wyoming-ríki í Bandaríkjunum og óskað eftir því að gefa Reykjavíkurborg hluta úr beinagrindinni. Eriksen á íslenska móður og hefur sett það sem skilyrði fyrir gjöfinni að risaeðlan beri nafn móður sinnar. Uppgröftur á risaeðlubeinunum stendur enn yfir.
Reykjavíkurborg setti saman stýrihóp á síðasta ári en í tilkynningu frá borginni sagði að hópurinn skyldi skila kostnaðaráætlun og mögulegum drögum að samningi við Leap Lab um afhendingu á beinagrindinni eigi síðar en 1. maí á þessu ári.
Jón Halldór segir í samtali við mbl.is að stýrihópurinn hafi neyðst til þess að fresta skilum á kostnaðaráætlun þar sem enn skorti ýmsar upplýsingar er varða varðveislu og hvernig best er að sýna beinin.
„Það er komin í gang vinna við það. Þessa daga þarf ég aðeins að ýta á eftir því en ég er ekki alveg með tímasetningu hvenær við náum að klára. Við viljum þó klára svo fljótt sem mögulegt er,“ segir hann og tekur einnig fram að hópurinn sé að skoða ýmsa möguleika er varða þrívíddarprentun.
„Beinin sem um ræðir eru aðeins hluti af risaeðlunni. Til að gefa gestum mögulegrar sýningar betri heildarmynd kemur til greina að þrívíddarprenta alla beinagrindina og þá skiptir líka máli í hvaða samhengi það er sett.“
Hann segir að stýrihópurinn muni setja fram þrjá mismunandi möguleika á framsetningu beinanna og gera kostnaðaráætlun fyrir hvern möguleika.
Spurður hvort hann sé vongóður um að það náist að gera samningur við Leap Lab og flytja beinin til Íslands í kjölfarið segir Jón Halldór ekki tímabært að svara því.
„Það þarf að skoða hvernig svona rekstrarform gæti verið í framhaldi. Þetta skiptist í grunnkostnað og svo þarf að sjá til sólar hvað varðar rekstur og að halda þessu gangandi og allt er varðar aðgengi.“
Hann segir að þegar allar upplýsingar liggja fyrir verði hugmyndirnar sendar til borgarráðs Reykjavíkur sem tekur loka niðurstöðu um framhaldið.