Útlit er fyrir vestlæga eða breytilega átt í dag, gola eða kaldi að styrk. Skýjað og lítilsháttar væta er á norðan- og austanverðu landinu, en vestanlands og á Suðurlandi má búast við sólarköflum.
Svo segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Hlýjast í dag ætti að verða 17-18 stig á Suðurlandi, en hiti undir 10 stigum fyrir norðan.
Á morgun er útlit fyrir hægan vind um allt land. Bjart með köflum, en lítilsháttar skúrir á stöku stað. Verður hið ágætasta veður á landinu og hitinn nokkuð jafndreifður á landshlutana, yfirleitt á bilinu 13-17 stig yfir daginn.
Annað kvöld er síðan vaxandi suðaustanátt sunnanlands og fer að rigna á þeim slóðum. Á föstudag og laugardag er útlit fyrir suðaustan kalda eða strekking með vætusömu veðri, en rigningin nær lítið yfir á norðanvert landið og þar gæti hiti náð 20 stigum þegar best lætur.