Svínið hreinsar útfellingar

Unnið við leiðsluna sem liggur frá Nesjavallavirkjun að höfuðborgarsvæðinu en …
Unnið við leiðsluna sem liggur frá Nesjavallavirkjun að höfuðborgarsvæðinu en hún er um 30 kílómetra löng. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erlendir sérfræðingar á vegum Veitna vinna þessa dagana að hreinsun útfellinga úr Nesjavallaæð. Markmiðið er að auka flutningsgetu pípunnar um 10% en aukningin samsvarar allri notkun Ábæjarhverfis á heitu vatni á kaldasta vetrardegi.

Við hreinsunina er notað tæki sem kallað er svín vegna hljóðanna sem það gefur frá sér. Þetta er kannski frekar pípuhreinsari á sterum því hann þarf að vinna á hörðum útfellingum sem safnast hafa innan á pípurnar á löngum tíma. Taka þarf leiðsluna í sundur til að koma skrúbbnum fyrir og síðan er vatni hleypt á og það ýtir skrúbbnum niður leiðsluna. Þarf að fara nokkrar ferðir eftir rörinu til að hreinsa það nógu vel.

Fyrstu umferðinni lauk í gær. Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumaður hitaveitu Veitna, segir að óhreinindi hafi komið með vatninu sem var hleypt út sem bendi til að skrúbburinn hafi unnið sitt verk. Nesjavallaæð er um 30 km löng hitaveitulögn sem flytur um 85 gráðu heitt vatn frá Nesjavallavirkjun til höfuðborgarsvæðisins. Hún var tekin í notkun árið 1990 og flytur 1.700 lítra á sekúndu.

Pípurnar voru síðast hreinsaðar fyrir 20 árum og þá komst flutningsgetan upp í um 1.740 lítra á sekúndu. Nú getur hún flutt um 1.450 lítra. Hrefna segir að markmiðið sé að auka flutningsgetuna um 10%, upp í um 1.600 lítra. Reiknað er með að hreinsun ljúki 30. júní og eftir það verður vegurinn aftur opnaður fyrir almenna umferð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert