11 beiðnir um leit að börnum og ungmennum

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 11 beiðnir um leit að börnum og ungmennum í maí.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir maí 2023.

Athygli vekur að hegningarlagabrotum fækkaði töluvert á milli apríl og maímánaðar. Þau voru 794 í apríl en 676 í maí.

Einnig fækkaði tilkynningum um heimilisofbeldi. Þær voru 70 í apríl en 55 talsins í maí. Það sem af er ári hafa borist um 14% færri tilkynningar um heimilisofbeldi samanborið við meðalfjölda sama tímabils síðustu þrjú ár á undan.

Lögreglumenn beittir ofbeldi

Í apríl voru skráð fimm tilvik þar sem lögreglumaður var beittur ofbeldi og eitt tilvik þar sem lögreglumanni var hótað ofbeldi. Alls bárust 113 tilkynningar um ofbeldisbrot í maí.

Það sem af er ári hafa borist um 15% fleiri tilkynningar um innbrot en bárust að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár á undan. Einnig fjölgaði tilkynningum um innbrot milli mánaða. Hins vegar fækkaði tilkynningum um þjófnaði á milli mánaða.

Færri stórfelld fíkniefnabrot

Skráðum fíkniefnabrotum fækkaði töluvert á milli mánaða og aðeins eitt stórfellt fíkniefnabrot var skráð í maí. Í apríl voru fimm stórfelld fíkniefnabrot skráð.

Þá fækkaði tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana-og fíkniefna sömuleiðis á milli mánaða, sem og tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur. Það sem af er árinu hafa 8% færri umferðarlagabrot verið skráð á höfuðborgarsvæðinu en að meðaltali á sama tíma síðustu þrjú ár á undan, að því er fram kemur í mánaðarskýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert