Karlmaðurinn sem setið hefur í gæsluvarðhaldi vegna manndrápsins í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði síðan 17. júní hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald af Héraðsdómi Reykjaness.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Greint er frá því að maðurinn muni sitja í gæsluvarðhaldi til 19. júlí á grundvelli almannahagsmuna.
„Karlmaður um fertugt var í dag í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 19. júlí á grundvelli almannahagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á andláti karlmanns á fimmtugsaldri í Hafnarfirði um síðustu helgi. Rannsókn málsins miðar vel, en ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu,“ segir í tilkynningunni.
Tveir pólskir karlmenn á fertugsaldri voru handteknir 17. júní vegna málsins. Annar situr í gæsluvarðhaldi en hinum var sleppt. Fram hefur komið að maðurinn sem fannst látinn sé pólskur karlmaður á fimmtugsaldri sem átti fjölskyldu hér á landi.
Þá sé gengið út frá því að maðurinn hafi verið stunginn til bana.