Baðferðin getur kostað fjölskyldu tugi þúsunda

Dýrast var í Bláa lónið jafnvel þótt börnin tvö fengju …
Dýrast var í Bláa lónið jafnvel þótt börnin tvö fengju frítt. mbl.is/Árni Sæberg

Það getur kostað skildinginn að ætla að heimsækja hin fjölmörgu baðlón sem nú er að finna um landið. Sem kunnugt er hefur þeim fjölgað hratt síðustu ár og enn fleiri eru á teikniborðinu. Vissara getur þó verið að kanna stöðuna á kortinu áður en fólk ákveður að hressa sig við á ferð um landið í sumar. Óformleg könnun Morgunblaðsins leiðir í ljós að lítil fjölskylda getur þurft að punga út hátt í þrjátíu þúsund krónum fyrir baðferðina og ekki er einu sinni víst að allir í fjölskyldunni megi fara ofan í lónin.

Kannað var verð á helstu baðlónum landsins sem nú eru orðin níu talsins eftir að Skógarböðin á Akureyri og böðin í Hvammsvík bættust við í fyrrasumar. Miðað var við að panta tíma í dag, fimmtudag, klukkan 13 fyrir fjögurra manna fjölskyldu, tvo fullorðna og tvö börn, níu og þrettán ára. Verð tekur mið af þessari tímasetningu og að valinn var einfaldasti pakki á hverjum stað. Fjölmargir pakkar eru í boði og mismunandi eftir hverju lóni auk þess sem verð getur verið mismunandi eftir árstíma eða tíma dags.

Dýrast í Bláa lónið

Dýrast var í Bláa lónið jafnvel þótt börnin tvö fengju frítt. Litlu ódýrara var í Himnalónið á Kársnesi í Kópavogi. Þar er þó ekki tekið á móti börnum yngri en 12 ára svo fjölskyldan verður annaðhvort að skipta sér upp eða leita eitthvað annað. Sömu sögu er að segja af sjóböðunum í Hvammsvík í Kjós en þar er uppgefið aldurstakmark tíu ár. Ódýrara er í Hvammsvíkurböðin á virkum dögum, um helgar kostar miðinn 8.900 krónur.

Skógarböðin við Akureyri eru ný af nálinni en skipa sér strax í hóp dýrustu baðstaðanna. Það kostar fjögurra manna fjölskyldu rétt tæpar 20 þúsund krónur að heimsækja böðin. Svipað verð þarf að greiða í Vök-böðunum við Egilsstaði. Verð í Geosea við Húsavík, Jarðböðunum á Mývatni og Kraumu í Borgarfirði er áþekkt. Ódýrast er hins vegar að heimsækja Fontana-böðin á Laugarvatni, rétt tæpar 13 þúsund krónur.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert