Bíll varð alelda eftir bílslys við Víkurskarð

Víkurskarð.
Víkurskarð. Ljósmynd/Vegagerðin

Bíll hafnaði utan vegar neðan við Víkurskarð, nærri Grenivíkurafleggjara, rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi. Einn farþegi var í bílnum og var hann fluttur á sjúkrahús, ekki liggja fyrir upplýsingar um áverka mannsins.

Þetta staðfestir Vigfús Bjarkason, varðstjóri hjá slökkviliðinu á Akureyri í samtali við mbl.is.

Rúv greindi fyrst frá.

Engin hætta á útbreiðslu elds

„Það hafnaði bíll þarna utan vegar, það var einn í bílnum og hann var fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri, ég hef ekki upplýsingar um hversu slasaður hann var eða hvort hann var slasaður,“ segir Vigfús.

Kviknað hafi í bílnum eftir að slökkvilið fór af vettvangi en búið hafi verið að draga bílinn í fjöruna á svæðinu.

„Þá var enginn á staðnum og þegar slökkvilið kom á staðinn þá var bíllinn brunninn til kaldra kola. Það var engin hætta frá honum, hann stóð rétt við fjöruna þarna og engin hætta á útbreiðslu elds,“ segir Vigfús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert