Íbúar í Árskógum í Breiðholti glíma nú við drullu og ryk öllum stundum vegna vaxandi grjóts- og jarðvegshaugs á nærliggjandi lóð.
Íbúi segir lóðina vera í eigu Reykjavíkurborgar en engin svör hafi þaðan fengist.
„Svo er endalaust keyrt í og keyrt í og keyrt í og nú sjá þeir sem búa á annarri hæð varla út um gluggann hjá sér eða bara beint inn í þetta og þriðja hæðin ofan á þetta. [...]Við eiginlega vonumst eftir rigningu á hverjum vegna þess að ef það hreyfir vind þá eru drullugusurnar bara innan um gluggana og allsstaðar.
Það er ekki hægt að opna gluggana orðið eða neitt fyrir bara ryki og drullu, fyrir utan sjónmengun, það er náttúrulega annað mál,“ segir Karlotta Jóna Finnsdóttir, íbúi á svæðinu í samtali við mbl.is.
Karlotta býr í blokk að Árskógum sem er í eigu Búseta en lóðin sem allt fýkur frá segir hún vera Álfabakka 2a.
Hún segist hafa talað við verktakann sem sé að sjá um að keyra í hauginn en hann hefði sagst ekki vita hver hefði leyfi fyrir að setja hauginn þarna. Hún segir marga hafa sent póst á skipulagssvið borgarinnar en engin svör hafi fengist. Þá hafi hún einnig reynt að hringja en þá sé henni bent á að senda tölvupóst. Það hafi hún og margir aðrir þegar gert.
„Við erum bara orðin hundleið á þessu. Þetta er náttúrulega ekki mönnnum bjóðandi að það sé ekki hægt að opna orðið glugga þessa sumardaga,“ segir Karlotta og spyr hverjir séu að leyfa þessa starfsemi. Lóðin virðist enn vera í eigu Reykjavíkurborgar og hafi ekki verið úthlutað.
Spuð hvað íbúar myndu vilja að yrði gert segir hún fyrst á lista vera að haugurinn verði færður.
„Við viljum bara losna við þetta sem fyrst, það þarf bara að þrífa blokkina okkar til dæmis og við þurfum að fá afsökunarbeiðni fyrir það að þetta sé gert svona. Þetta er náttúrulega til skammar að þetta sé gert svona. Fólk á ekki að þurfa að búa við svona lagað,“ segir Karlotta.
Hún segir ryk og mold streyma inn um glugga og op.
„Þetta er bara moldrok inn um gluggana þarna, þú sest ekkert út á svalir þarna, það er bara ekki hægt,“ segir hún og nefnir að blokkin sé í eigu Búseta.
Mest fari þó í taugarnar á henni að engin svör fáist frá Reykjavíkurborg.
„Ég vil bara fá svör við þessu, ég vil fá að vita hver gefur leyfi fyrir svona löguðu og ég vil þetta burt,“ segir Karlotta.
Karlotta viðraði vandamálið í íbúahópi á Facebook og fékk viðbrogð frá Söru Björgu Sigurðardóttur formanni íbúaráðs Breiðholts. Í samtali við mbl.is segist Sara enn bíða svara frá eftirlitsmönnum, sem sendir hafi verið á staðinn, um stöðu mála.