Dýrara í strætó frá 1. júlí

Strætó hækkar gjaldskrá sína um mánaðamótin.
Strætó hækkar gjaldskrá sína um mánaðamótin. mbl.is/Sigurður Bogi

Strætó hækkar gjaldskrá sína um 3,6 prósent af stökum fargjöldum um mánaðamótin og um leið hækka tímabilskort svokölluð um 3,3 prósent. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu fyrirtækisins.

Stakt fargjald fer þar með úr 550 krónum í 570 og 30 daga nemakort og kort fyrir ungmenni og aldraða fer úr 4.500 í 4.650 krónur.

Eftir því sem greint er frá í tilkynningu fyrirtækisins er þar stefnt að endurskoðun gjaldskrár tvisvar á ári og var hún síðast hækkuð 1. október í fyrra. Frá þeim tíma hafi vísitala neysluverðs hækkað um 5,2 prósent og Strætóvísitala um 3,5.

Vegagerðin hækkar einnig

Markmiðið með gjaldskrárstefnunni er samkvæmt tilkynningu Strætó að tryggja að gjaldskrá haldist í hendur við rekstrarkostnað fyrirtækisins.

Enn fremur er greint frá samhliða hækkun Vegagerðarinnar á sinni gjaldskrá og nemur sú hækkun 16,3 prósentum. Fer stakt fargjald þar úr 490 í 570 krónur. Tímabils- og nemakort hækki þó ekki að sinni. Ferð frá Reykjavík til Akureyrar hækkar sem dæmi úr 10.780 krónum í 12.540 og ferð frá Reykjavík til Keflavíkur úr 1.960 í 2.280 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert