Einkasamskipti verkefnastjóra rædd á aukafundi

Heiða Björg Hilmisdóttir segir gagnrýni um að íbúaráð séu aðeins …
Heiða Björg Hilmisdóttir segir gagnrýni um að íbúaráð séu aðeins sýndarmennska komi henni mjög á óvart. Samsett mynd

Boðað hefur verið til aukafundar íbúaráðs Laugardals á mánudag, í kjölfar einkasamskipta tveggja verkefnastjóra Reykjavíkurborgar, sem fyrir slysni voru sýnileg fundargestum í beinu streymi. Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir málið í höndum starfsmannastjóra, enda sé um að ræða almenna starfsmenn, sem harmi mistökin mjög. 

Borgarráð tók málið fyrir á fundi í dag en Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, vísaði í viðbrögð mannréttindastjóra, Önnu Kristinsdóttur. 

„Mannréttindastjóri hefur boðað til fundar með íbúaráði Laugardals, ásamt starfsmönnunum sem um ræðir, til þess fara yfir þessu leiðu mistök. Fundurinn verður á mánudag. Í framhaldinu verður skerpt á verklagi við framkvæmd íbúaráðsfunda þegar íbúaráðin koma saman á ný í ágúst.“

Almennir starfsmenn

Heiða Björg sagði í samtali við mbl.is að málið væri í höndum starfsmannastjóra, ekki borgarráðs. Báðir starfsmenn hafi verið í afleysingum á fundinum og hvorki formaður né varaformaður hafi verið viðstödd á íbúaráðsfundinum.

Mannréttindastjóri hafi engu að síður hafa setið fund með borgarráði í morgun og farið yfir málið með þeim. Í framhaldi af því hafi verið boðað til aukafundarins í íbúaráði þar sem farið verður yfir málið með fulltrúum ráðsins, en Heiða segir að auðvitað verði einnig dreginn lærdómur af mistökunum, sem starfsmennirnir harmi mjög. 

Gangrýni kemur á óvart

Hún segir gagnrýni um að íbúaráð séu aðeins sýndarmennska komi henni mjög á óvart. Hún viti ekki betur til þess en að vel sé staðið að fundunum og að þeir nýtist íbúum vel. 

„Það er auðvitað alltaf sjálfsagt að endurskoða það, þetta er náttúrulega lýðræðisvettvangur og lýðræðislegt samtal.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert