Endurskoða þurfi menntakerfið í heild sinni

Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra segir að endurskoða þurfi menntakerfið í heild sinni, í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is, sem sneri að ályktunum úr rannsókn Gylfa Zoëga, prófessors við félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Gylfi dregur þá ályktun að stytt­ing náms á fram­halds­skóla­stigi, sem gerð var árið 2014, hafi verið van­hugsuð.

„Ég er ekki sérstakur talsmaður styttra náms en við þurfum hins vegar að endurskoða kerfið í heild sinni útfrá hagsmunum barna og nemenda. Meðal annars með því að skipuleggja húsnæði og kennslu þannig að fjármagn nýtist sem best til þess að tryggja fjölbreytt nám og þjónustu. Því að það er það sem skiptir mestu máli. Árið í ár er nánast fyrsta eðlilega skólaárið eftir heimsfaraldurinn og þannig er ekki komin næg reynsla á breytingarnar og erfitt að draga ályktanir af þessu,“ segir Ásmundur Daði.

Skólastjórnendur almennt til í endurskoðun

Sólveig Guðrún Hannesdóttir, rektor Menntaskólans í Reykjavík, telur mikilvægt að breytingar á menntakerfinu séu ræddar á forsendum nemenda.

Sólveig Guðrún Hannesdóttir. Rektor Menntaskólans í Reykjavík.
Sólveig Guðrún Hannesdóttir. Rektor Menntaskólans í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það eru auðvitað bæði rök með og á móti því að nemendur útskrifist fyrr. Ég tel klárlega að sú faggreinakennsla sem nemendur hljóti í framhaldsskólum landsins sé gífurlega dýrmætur undirbúningur fyrir framhaldsnám. Mín skoðun er sú, að í allri umræðu sem snýr að breytingum á kerfinu, skuli taka mið af því mikilvæga hlutverki sem framhaldsskólaárin gegna í mótun og félagsþroska einstaklinga,“ segir Sólveig í samtali við mbl.is.

Kolfinna Jóhannesdóttir, skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík telur mikilvægt að í allri stefnumótun um breytingar á menntakerfinu sé hugað að því í upphafi hvernig ætlunin sé að leggja mat á árangur breytinganna. Í því samhengi er hægt að draga lærdóm af reynslu annarra Norðurlanda til dæmis.

„Ég tel almennt mjög mikilvægt að þegar unnið er að breytingum á menntakerfinu að það liggi fyrir í upphafi hvaða markmiðum eigi að ná og að árangurinn sé metinn útfrá þeim og umbótum fyrir þá sem kerfinu er ætlað að þjóna. Einnig að aðrar mögulegar afleiðingar séu hafðar í huga. Í þessu samhengi erum við að tala um að þarfir nemenda ættu ávallt að vera í fyrirrúmi við langtímastefnumótun menntakerfisins,“ segir Kolfinna í samtali viðmbl.is.
Kolfinna Jóhannesdóttir, skólastjóri Kvennaskólans
Kolfinna Jóhannesdóttir, skólastjóri Kvennaskólans Ljósmynd/Hákon Pálsson

Nemendur vilja breytingar

Andrea Margrétardóttir Jónsdóttir, forseti Sambands íslenskra framhaldsskólanema telur að núverandi kerfi falli ekki að þörfum nemenda og fjölbreyttra þarfa þeirra.

„Það er skoðun nemenda almennt að þetta sé ekki stytting á námi heldur samþjöppun á því. Það er svo mikilvægt að fá að lifa og dafna í framhaldsskóla. Þetta eru með mikilvægustu árum í þroska einstaklinga. Með styttingunni er tekið eitt ár af þessum mikilvæga þroskatíma nemenda.  

Þrátt fyrir styttinguna eru nemendur og þá sérstaklega þeir á fjölbrautum að taka sér lengri tíma í námið og eru oft að útskrifast á 3 og hálfu eða 4 árum í stað 3 sem kerfið vill. Það hentar sumum að taka námið á 3 árum en öðrum ekki. það þarf að skoða afleiðingarnar sem styttingin hafði í för með sér, endurskoða kerfið og betrumbæta eða finna nýjar lausnir sem virka fyrir alla,“ segir Andrea í samtali við mbl.is.

Andrea Margrétard. Jónsdóttir, forseti Sambands íslenskra framhaldsskólanema.
Andrea Margrétard. Jónsdóttir, forseti Sambands íslenskra framhaldsskólanema. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert