Í gæsluvarðhaldi fram í júlí

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Enn er beðið eftir lífsýnarannsóknum og tæknigögnum vegna andláts konu á þrítugsaldri á Selfossi í apríl. Gæsluvarðhald yfir hinum grunaða hefur verið framlengt til 14. júlí en hann hefur setið í varðhaldi síðan 29. apríl.

„Við fórum fram á framlengingu á gæsluvarðhaldi í síðustu viku og héraðsdómur úrskurðaði tvær vikur, við fórum fram á fjórar vikur. Við kærðum það til Landsréttar og Landsréttur breytti því í fjórar vikur,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Þegar lögreglan lýkur rannsókn sinni fer málið til héraðssaksóknara sem tekur ákvörðun um framhaldið.

Sveinn segir rannsóknina ganga vel, allt taki þetta þó sinn tíma.

„Þetta er mikið af gögnum sem við þurfum að láta greina fyrir okkur og vinna í, það er bara seinleg vinna, tekur bara tíma. Þannig það er ekkert sem kemur á óvart í sjálfu sér,“ segir Sveinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert