Ísland móti markvissa loftslagsstefnu

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs.
Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, segir nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld móti markvissa loftslagsstefnu.

Stjórnvöld þurfi að taka málið fastari tökum ef Ísland eigi að uppfylla loforð sín í viðureigninni við loftslagsvána.

Lofts­lags­ráð seg­ir aðgerðir stjórn­valda í lofts­lags­mál­um ekki hafa skilað til­ætluðum ár­angri og að landið nái ekki að upp­fylla skuld­bind­ing­ar um að helm­inga heims­los­un gróður­húsaloftteg­unda fyr­ir árið 2030, ef ekki verður gripið í taum­ana.

Ráðið legg­ur fram sex brýn­ustu aðgerðir sem stjórn­völd eigi ganga í vegna lofts­lags­mála og eru þær eft­ir­far­andi:

  1. Að móta mark­vissa lofts­lags­stefnu
  2. Að stór­efla og styrkja stjórn­sýslu lofts­lags­mála á landsvísu og í sveit­ar­fé­lög­um
  3. Að skerpa aðgerðir stjórn­valda og beita öll­um stjórn­tækj­um skil­virk­ar til að ná markmiðum
  4. Að nýta sér­fræðiþekk­ingu á breiðu sviði lofts­lags­mála við stefnu­mót­un og eft­ir­fylgni
  5. Að virkja enn frek­ar getu stjórn­valda og at­vinnu­lífs til að bregðast sam­taka við loftslags­vánni
  6. Að bæta veru­lega í rann­sókn­ir og vökt­un á los­un frá landi til að und­ir­byggja ákvarðanir

Grípa þarf í taumana

„Staðreyndin er sú að við erum ekki að ná þeim árangri sem vonir stóðu til og það er bara á nokkrum sviðum þar sem það hefur náðst að draga saman losun og heildarlosunin er að aukast. Þetta þýðir það að ef það verður ekki gripið í taumana munum við ekki geta staðið við skuldbindingar okkar um samdrátt fyrir 2030,“ segir Halldór í samtali við mbl.is.

Segir hann mestu losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi vera í ferðaþjónustunni og vegasamgöngum. Einnig sé mikil losun frá úrgangi og landnotkun, „bæði þar sem votlendi hefur verið ræst fram og frá illa förnu beitilandi“.

Móta loftslagstefnu og setja stjórnsýslu á neyðarstig

„Það þarf að tengja þetta meira í heilstæðri loftslagsstefnu,“ segir Halldór og ítrekar að aðgerðaráætlun og loftslagsstefna sé ekki sami hluturinn.

„Aðgerðaráætlunin var ágætis byrjun þegar hún kom og mikil framför og þar eru yfir 50 aðgerðir. En þetta er frekar afmarkað og frekar sundurlaust og það skortir alveg festuna í að framkvæma þetta. Þess vegna köllum við eftir því að stjórnsýslan færist á neyðarstig, sem kallar á miklu skarpari fókus á ábyrgð og að það væri gengið mun hraðar til verka.“

Hann segir að margt af því sem finnst í tillögum Loftlagsráð sé fjarri því að vera nýtt.

„Við erum að taka þetta saman því við höfum verið að segja sumt af þessu núna á fjórða ár.“

Framtíð ráðsins í lausu lofti

Lofts­lags­ráð lýk­ur fjög­urra ára skip­un­ar­tíma sín­um í byrjun september. Halldór segir óljóst hvernig skipun ráðsins verði hagað í framtíðinni en að líklegt sé að einhverjar breytingar verði gerðar á því.

„Samkvæmt lögum um loftslagsmál skal vera loftslagsráð og en nú er spurning hvort ráðið sé skipað í núverandi mynd eða hvort það verða gerðar breytingar á lögunum,“ segir hann. Í ráðinu eru fulltrúar hagaðila, umhverfissamtaka, háskólasamfélagsins og sveitarfélaga.

Halldór segir hins vegar að meirihluti fulltrúa í Loftslagsráði séu fulltrúar hagaðila en þegar litið er til sambærilegra ráða í nágrannalöndum sé yfirleitt lögð áhersla á að sérfræðingar séu stærsti hópur í ráðinu.

„Í nágrannalöndum er það yfirleitt þannig að loftslagsráð sé meira faglegs eðlis. Það er verið að skoða það hvort það sé kominn tími hér að fara frekar í þá átt.“

Ekki séríslenskar skuldbindingar

„Mér finnst ágætt að undirstrika það að þó þetta séu íslenskar skuldbindingar, erum við að taka þær sameiginlegar með bandalagsþjóðum. Fari Ísland framúr þurfa aðrar Evrópuþjóðir að draga meira saman,“ segir Halldór. „Ísland er ekki eina landið sem er í erfiðleikum.“

„Loftlagsráð er alls ekki að segja að þetta sé auðvelt. Þetta snýst í raun um að Ísland sé í stakk búið til að taka þátt í kolefnishlutlausu hagkerfi framtíðarinnar,“ segir Halldór að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert