Jón rekur ágreininginn milli stjórnarflokkanna

Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segir þinglokin í vor hafa snúist að miklu leyti um ágreining á milli ríkisstjórnarflokkanna frekar en ágreining á milli stjórnar- og stjórnarandstöðu eins og oft er.

Um þetta er fjallað í viðtali við Jón í Dagmálum í vikunni. Þar fjallar Jón um aðdraganda þinglokanna þar sem deilt var um frumvarp hans um breytingar á lögreglulögum, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir því að löggæslustofnanir hér á landi geti verið í samskiptum við erlendar leyniþjónustur vegna hættulegra einstaklinga.

Jón segir að þingmenn Vinstri grænna (VG) hafi eftir því sem leið á sett ýmsa fyrirvara á frumvarpið og hann hafi lagt mikið á sig til að mæta þeim fyrirvörum. Þá hafi einnig komið fyrirvarar sem hann segir að aldrei hafi verið ræddir við hann.

„Ég upplifði þetta þannig að hafa verið dreginn á asnaeyrunum í þessu máli,“ segir Jón þegar hann lýsir ferlinu.

Hægt er að horfa á hluta viðtalsins hér að ofan en þátturinn er allur aðgengilegur á slóðinni hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert