„Við sinnum félagslegum stuðningi við þennan viðkvæma hóp og í því er hópur öflugra sjálfboðaliða,“ segir Þorsteinn Valdimarsson, verkefnastjóri í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossinum, í samtali við mbl.is vegna erindis Bus4U til bæjarráðs Reykjanesbæjar í maí sem Morgunblaðið greindi frá í vikunni.
Var þar greint frá „ákveðnum hópum“ sem væru lítt við alþýðuskap, ágengir og frekir, og að börn veigruðu sér við að nota strætisvagnana vegna áreitis. Þá hefðu skemmdarverk á vögnum færst í aukana og bílstjórar Bus4U hrökklast úr starfi. Lagði eigandi fyrirtækisins það til í erindi sínu til bæjarráðs að strætókortum flóttamanna yrði lokað.
Kveðst Þorsteinn verkefnastjóri ekki kannast við þessa ágengu og freku hópa. „Það er auðvitað alltaf alvarlegt þegar einhver hagar sér á annan hátt en við samþykkjum í samfélaginu en ég hef ekki upplýsingar um nein af þessum málum,“ segir hann, „þetta er ekki eitthvað sem ég þekki, ég kannast ekki við mína skjólstæðinga í þessum lýsingum.“
Segir hann samskipti hans fólks við skjólstæðingana á jákvæðum nótum. „Auðvitað er fólk í viðkvæmri stöðu og því líður ekki alltaf vel. Við erum að reyna að veita fólki þann sálræna stuðning að gefa því eyra sem hlustar og öxl til að gráta á. Við sýnum samkennd og samhug og beitum virkri hlustun svo fólk upplifi sig ekki aleitt í þessum heimi þegar það kemur til Íslands.
Samskiptum við flóttamenn segir Þorsteinn komið á meðal annars á þjónustuborðum í Domus þar sem móttakan fer fram. „Við stöndum þar hluta dags og kynnum okkar starf á virkum dögum en svo treystum við líka á okkar samstarfsaðila sem hjálpa okkur og láta fólk vita af verkefninu okkar,“ heldur hann áfram og segir einnig frá hópi á Facebook þar sem Rauði krossinn kynni fjölda viðburða á hans vegum.
Hann segir flóttamennina leita mikið til Rauða krossins, „ég var til dæmis að líta yfir maímánuð núna og mér sýnist hann hafa verið stærsti mánuðurinn okkar fram til þessa, okkar sjálfboðaliðar stóðu þá fyrir rúmlega hundrað viðburðum, þar af um 40 á Suðurnesjum“, segir Þorsteinn og nefnir sem dæmi íslenskunámskeið sem kennarar á eftirlaunum hafi haft veg og vanda af.
Segir hann 103 viðburði hafa verið haldna í maí í félagsstarfi umsækjenda um vernd flóttafólks. Af þeim voru 30 haldnir í Reykjanesbæ, níu í Grindavík, níu á Laugarvatni en hinir á höfuðborgarsvæðinu í félagsmiðstöðvunum Árskógum og Vitatorgi, ungmennahúsinu Hamrinum og víðar. Hafi sjálfboðaliðar unnið 297 klukkustundir á viðburðum í mánuðinum og skjólstæðingar komið samtals 2.382 sinnum á viðburði.
„Þetta er svona byrjunarreitur fyrir þá sem eru að koma til Íslands,“ segir hann um íslenskunámskeiðin sérstaklega, „og við erum líka með háskólanema og svo bara fólk á almennum vinnumarkaði sem sinnir sjálfboðaliðavinnu hjá okkur til viðbótar við sín daglegu störf,“ útskýrir Þorsteinn og kveðst finna fyrir miklu þakklæti frá skjólstæðingunum sem býðst að svara þjónustukönnunum sem eru á nokkrum tungumálum.
„Almennt fáum við mikið þakklæti og líka virka þátttöku frá fólki sem lætur okkur til dæmis vita af því af hverju það vill gera meira og tekur þar með þátt í að móta starfið með okkur,“ segir Þorsteinn Valdimarsson, verkefnastjóri í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossinum, að lokum.