„Ég þarf ekki OECD til að segja mér hvernig á að sinna þessu“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra, líst illa á hugmyndir Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um frekari skattlagningu á ferðaþjónustuna.

„Í Evrópu er meðalskattheimta á ferðaþjónustu 12,5%. Aðeins fjögur ESB ríki eru með ferðaþjónustuna í efra skattþrepinu. Ísland er nú þegar dýrt land og að hækka skatta á greinina mun augljóslega veikja samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu,“ segir Lilja í samtali við Morgunblaðið.

Eins og Lilja rakti í grein í Morgunblaðinu í gær, munar um ferðaþjónustuna. „Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu ársins 2022 nemur 7,8% og útgjöld erlendra ferðamanna námu 390,4 milljörðum króna og er áætlað að rúmlega 18 þúsund einstaklingar hafi starfað við ferðaþjónustu í fyrra. Það gefur auga leið að fyrir lítið opið hagkerfi er nauðsynlegt að hafa öflugar útflutningsstoðir eins og ferðaþjónustuna,“ skrifaði Lilja.

OECD kynnti skýrslu sína um íslenskt efnahagslíf á þriðjudag og er þar mælt fyrir því að skattaundanþágur ferðaþjónustunnar verði afnumdar og atvinnugreinin færð í almenna virðisaukaskattsþrepið.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, tók vel í þær hugmyndir á þriðjudag. „Ferðaþjónustan er að valda álagi á marga innviði okkar, meðal annars heilbrigðiskerfið, samgöngukerfið, vegi og brýr, líka auðvitað umhverfið og náttúruna. Spurningin er: Er ekki eðlilegt að hún leggi meira af mörkum?“ sagði Guðmundur Ingi í samtali við mbl.is.

Veikir samkeppnisstöðu

Lilja vill ekki kannast við neinn ofvöxt ferðaþjónustunnar, hún sé rétt að ná sama stað og hún var á fyrir heimsfaraldur. Hún veltir því einnig fyrir sér hvað teljist ofvöxtur. „Ef við lítum bara á þetta stóra land. Augljóslega eru margir ferðamenn að koma, ef þú miðar við hve margir búa hér, en ef til vill ekki sé horft til stærðar landsins.“

Lilja segist fylgjast glöggt með öllum tölum tengdum ferðaþjónustunni og að Ísland sé ekki að ná þeim tölum sem bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. Hún hvetur fólk til þess að líta á heildarmyndina sem frekari skattheimta á greinina gæti haft í för með sér.

„Ef fara á í þá vegferð sem sumir tala um, að fækka hér ferðamönnum, má spyrja í framhaldi hvað það þýði fyrir gjaldeyristekjurnar. Gjaldeyristekjur minnka, krónan veikist og verðbólgan eykst.“

Ráðherra segist vera farin af stað með umfangsmikla stefnumótun innan ráðuneytisins fyrir ferðaþjónustuna, sem nær fram til ársins 2030. „Ég fullyrði að enginn ráðherra sem gegnt hefur þessu embætti hefur farið í jafn vandaða stefnumótun. Ég þarf ekki OECD til að segja mér hvernig á að sinna þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert