Nemendur gætu sloppið við sundkennslu

Fjarðabyggð. Sundlaugin á Eskifirði.
Fjarðabyggð. Sundlaugin á Eskifirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Nemendur í 8.-10.bekk í Fjarðabyggð gætu sloppið við hefðbundna sundkennslu, með því skilyrði að þeir standist árleg stöðupróf.

Ungmennaráð Fjarðabyggðar lagði tillöguna fram og hefur fræðslunefnd nú samþykkt hana. Er grunnskólum Fjarðabyggðar falið að taka upp stöðupróf í sundi í haust.  

Elín Eik Guðjónsdóttir, formaður ungmennaráðs Fjarðabyggðar, telur breytingarnar vera kærkomnar umbætur fyrir nemendur Fjarðabyggðar.

„Þetta er mjög brýnt málefni, við í ungmennaráðinu höfum heyrt frá krökkum að þeim þyki sundkennsla bæði leiðinleg og kvíðavaldandi. Við í ráðinu vildum koma til móts við þennan hóp, og þá sérstaklega í ljósi þess að fullorðna fólkið virðist ekki gera sér grein fyrir því hvaða áhrif núverandi sundkennsla hefur á líðan krakka.

Við töldum það hlutverk ungmennaráðsins að koma röddum nemenda áfram til bæjarráðs, og því afhentum við fræðslunefnd tillögu okkar í formi minnisblaðs, sem fékk mjög góðar viðtökur. Við komum því til skila að engir krakkar eru eins, og sem betur fer. Krakkar hafa mismunandi þarfir og eru misgóð í hlutum, allir geta eitthvað en enginn getur allt,“ segir Elín í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka