Ný útsýnisþyrla komin til landsins

Ný þyrla Norðurflugs í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli og bíður þess …
Ný þyrla Norðurflugs í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli og bíður þess að sýna ferðamönnum stórbrotna náttúru Íslands. Hönnun vélarinnar þykir einstök. mbl.is/Árni Sæberg

Ný útsýnisþyrla lenti á Reykjavíkurflugvelli á þriðjudag. Þyrlan er framleidd af Airbus og það er Norðurflug sem keypti þyrluna en verðmæti hennar er rúmlega 200 milljónir króna. Þyrlan er sambærileg þyrlu sem fyrirtækið keypti árið 2018. „Þetta er mikil fjárfesting fyrir okkar fyrirtæki,“ segir Birgir Ómar Haraldsson, framkvæmdastjóri Norðurflugs.

„Þetta eru vinsælustu útsýnisþyrlur sem til eru í þessum stærðarflokki og jafnvel miðað við þyrlur almennt.“ Í ósnortnum víðernum er mikilvægt að hávaðinn frá þyrlunni sé ekki of mikill. „Þetta eru hljóðlátari þyrlur en allar þyrlur í sínum stærðarflokki og eru til dæmis eingöngu notaðar í Miklagljúfri í Bandaríkjunum. Þar sem þær fara ofan í gilið þar og mikið endurkast verður af hávaða.“

Einstök hönnun

Þyrlan er einstök að mörgu leyti þar sem útsýni farþega er meira en almennt þekkist. „Farþegarnir eru afskaplega ánægðir með útsýnið úr þyrlunni,“ segir Birgir. Ástæðan er sú að við hönnun vélarinnar var horft til þess að hafa glugga hennar stærri en gengur og gerist. „Gluggarnir ná vítt í kringum þig og yfir þig,“ segir framkvæmdastjóri Norðurflugs. Miðað við stærð þyrlunnar eru gluggarnir stórt hlutfall af ummáli hennar.

Einstakt þykir að þrír geta setið fremst í þyrlunni, tveir farþegar ásamt flugmanni, en alls tekur þyrlan sex farþega. Allir farþegar sitja í flugstefnu þyrlunnar sem gerir upplifun farþegans enn betri.

Nýjasta þyrlan í flugflota Íslendinga var keypt í Suður-Afríku, en áður keypti Norðurflug sambærilega þyrlu í Argentínu.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert