„Öll þau börn sem sóttu um nám á starfsbrautum framhaldsskóla hafa fengið boð um skólavist,“ skrifar Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, á Facebook-síðu sína en mbl.is hefur undanfarið fjallað um tvö fötluð börn sem biðu eftir skólavist, annað þeirra beið eftir svari en hitt fékk hreinlega neitun.
Segir ráðherra gleðilegt að segja frá því að opnaðar verði nýjar starfsbrautir við Kvennaskólann í Reykjavík og Menntaskólann í Reykjavík næsta haust auk þess sem nær allir framhaldsskólar stækki brautir sínar frá því sem verið hafi.
„Verzlunarskóli Íslands stefnir einnig [á] að opna starfsbraut haustið 2024. Samhliða þessu þá ætlum við að breyta skipulagi starfsbrauta og verklagi í þessum málum til framtíðar en það verður kynnt síðar á þessu ári,“ skrifar Ásmundur Einar enn fremur.
Segir hann afar mikilvægt að tekið sé vel utan um þennan viðkvæma hóp og þátttaka allra tryggð, ekki bara í menntakerfinu heldur samfélaginu öllu. Kveðst ráðherra því sérstaklega ánægður með góð viðbrögð skólafólks um allt land og segist finna fyrir miklum vilja til þess að tryggja að skólakerfið mæti öllum börnum.