Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS, hefur óskað eftir áliti umboðsmanns Alþingis á ágreiningsmálum á milli sín og heilbrigðisráðherra, Willum Þórs Þórssonar, varðandi bætta þjónustu við íbúa Suðurnesja. Segir hann framgöngu ráðuneytisins hvorki í samræmi við góða stjórnsýslu né siðareglur ráðherra.
Í tilkynningu kveðst Markús hafa beitt sér fyrir að bæta þjónustu við íbúa á Suðurnesjum og barist gegn ranglæti sem íbúar hafi þurft að þola af hálfu stjórnvalda, sérstaklega hvað varðar fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu. Markús segir verulega hafa skort efnisleg svör af hálfu ráðuneytisins við erindum hans og niðurstöðum skýrslna ráðgjafafyrirtækisins Deloitte.
Hann hafi því óskað eftir að umboðsmaður Alþingis taki afstöðu til framgöngu ráðherra, með þátttöku ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins, gagnvart sér, en hann kveðst hafa verið beittur óeðlilegum þrýstingi og orðið fyrir óviðunandi framkomu. Hann hafi einungis sinnt starfsskyldu sinni sem felist m.a. í að upplýsa um óþægilegar staðreyndir eða gagnrýna stjórnvöld.
Segir Markús þjónustuna ekki taka mið af fjölgun íbúa og þróun rekstrarkostnaðar, en að HSS hafi varað ráðuneytið við þróuninni fyrir ári síðan eftir að Deloitte sagði að fjárframlög á hvern íbúa hefðu dregist saman um 22 prósent. Í dag sé sá samdráttur kominn upp í 27 prósent fyrir stofnunina og 50 prósent á sjúkrasviði.
„Staðan hefur því hríðversnað milli ára, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir af minni hálfu til að fá heilbrigðisráðuneytið og ráðherra til að leiðrétta það stóra gat sem aðgerðaleysi stjórnvalda um árabil hefur leitt af sér, gat sem núverandi ráðherra ber ekki einn ábyrgð á að myndaðist.“
Heilbrigðisráðuneytið hafi hins vegar ekki brugðist við með fullnægjandi hætti, en hafi þó skilað aukafjárveitingum. Þær dugi þó ekki til þar sem grunnvandi stofnunarinnar sé enn óleystur.
Kveðst hann hafa fengið bréf þess efnis í síðustu viku að ráðuneytið hygðist beita sér fyrir að fjárveitingar til slysa- og bráðamóttöku HSS yrðu hækkaðar um 300 milljónir í fjárlögum næsta árs. Í því felist ákveðin viðurkenning en að sú fjárveiting dugi ekki til að leysa vandann nema að hluta.