Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir niðrandi spjallsamskipti borgarstarfsmanna á fundi íbúaráðs í Laugardal staðfesta fyrri upplifun hennar á að íbúaráð borgarinnar séu í raun aðeins sýndarmennska.
Í tilkynningu sinni segir hún mikið áfall að fá staðfestingu á grunsemdum sínum en að hún telji viðhorf starfsmannanna eiga rætur að rekja í vinnustaðamenningu í borgarstjórn Reykjavíkur.
„Meirihlutinn er að láta sem hann vilji veg íbúa sem mestan og vilji leyfa íbúum að vera alvöru þátttakendur í ákvörðunum sem varða hverfið þeirra. Þegar allt kemur til alls er þetta bara plat, kannski frá a til ö“
Hún kveðst lengi hafa reynt að átta sig á kerfinu í kringum íbúaráðin og lýðræðislegt gildi þeirra fyrir íbúa, þar sem meirihluti ráðanna séu skipaður af meirihlutanum í borginni og líkist því einna helst „mini-borgarstjórn.“
Segir hún fyrirspurnum fulltrúa í ráðinu ítrekað vera seint og illa svarað, mikilvæg málefni hverfisins slegin af dagskrá funda og að uppsetningu fundanna með slíkum hætti að starfsfólk borgarinnar stýri þeim og innihaldi þeirra.
Kolbrún segir að sér hafi borist ábendingar í kjölfar umfjöllunar um atvikið, þar sem aðrir fulltrúar í ráðunum og fundargestir hafa lýst svipuðum upplifunum, sem að hennar mati staðfesti að ráðin séu aðeins sýndarmennska.
„Íbúaráðin eru ekki að virka, lýðræðisleg umræða blómstrar ekki og sú grenndarþekking sem býr í fulltrúum ráðsins er vannýtt,“ segir Kolbrún í tilkynningunni og bætir við að ráðin virðist „aðeins vera leiksvið sem meirihlutinn undir stjórn Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu hefur sett upp til að slá ryki i augu borgarbúa.“