Ríkissaksóknari segir það hafa verið skyldu embættisins að færa rök fyrir mildun dóms í Rauðagerðismálinu svokallaða þar sem ekki hafi verið lagaheimild til þess að dæma Angjelin Stekaj til 20 ára fangelsisvistar í Landsrétti. Hæstiréttur mildaði dóm hans í 16 ár og hinna sakborninganna þriggja úr 14 árum í tíu ára, fjögurra ára og þriggja ára dóm.
Ríkissaksóknari hafði tekið undir með sakborningum í málinu um að réttast væri að Hæstiréttur tæki á málinu vegna skorts á lagaheimild til að dæma til svo þungra fangelsisvista og úr varð að málið var tekið fyrir í Hæstarétti.
Einhverjir hafa furðað sig á því að til mildunar hafi komið þar sem Armando Beqirai var skotinn af stuttu færi af Angjelin fyrir utan heimili sitt.
„Það er skylda ákæruvaldsins að vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós í hverju máli og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar, sbr. 3. mgr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Af þessari meginreglu leiðir m.a. að ákæruvaldinu ber að færa fram fyrir dómi það sem réttast er þegar kemur að ákvörðun refsingar sakbornings,“ segir í skriflegu svari Sigríðar J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara við fyrirspurn mbl.is um málið.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segir að ríkissaksóknari hafi hlutlægnisskyldu og að horft sé til þess að dæmt sé lögum samkvæmt.
„Okkar skyldur eru fyrst og fremst við lögin og rétta niðurstöðu. Rök fyrir því að milda refsingu í þessu máli byggði á röngum lagaskilningi Landsréttar um að hægt væri að fara yfir 16 ár. Skoðanir ákæruvaldsins skipta engu máli. Það þarf að fara eftir lögunum,“ segir Helgi.
Hann segir ríkissaksóknara ekki þjóna eigin lund þó þeir geti haft skoðanir á hinu og þessu. Hann sé fyrst og fremst í þjónustu við lögin.
„Réttlátt er að svona mál séu afgreidd með lögunum en ekki tilfinningum fólks,“ segir Helgi.