„Stutt í að maður sé sagður kaldur og vondur“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og þingmaður úr Norðvesturkjördæmi, segir að ríkisstjórnarsamstarfið sé ekki í hættu. Vissulega séu deildar meiningar um hvalveiðar, útlendingamál, orkumál og áfengismál en það hafi verið vitað í þetta eina og hálfa kjörtímabil sem ríkisstjórnin hefur starfað.

Hins vegar sé ljóst að ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um bann við langreyðaveiðum muni hafa áhrif á fjölda sveitunga hennar á Vesturlandi sem og bæjarfélögin í kring sem búist hafi við tekjum af atvinnustarfseminni í sumar. Því sé málið henni umhugað. 

Eins taki hún tal um útlendingaandúð ekki til sín þar sem það standist enga skoðun þó Sjálfstæðismenn hafi lengi talað um að setja málefni hælisleitanda í fastari skorður.

Vegið að atvinnufrelsi 

Hvalveiðibannið var kynnt í ríkisstjórninni í fyrradag. Hún segir að málið hafi ekki farið möglunarlaust í gegnum kynninguna. Hins vegar hafi Svandís verið að tilkynna um ákvörðunina og henni yrði ekki haggað úr því sem komið var. Sjálf sé hún hlynnt sjálfbærri nýtingu hvalastofnsins og telur umdeilt að Svandís hafi tekið ákvörðunina með svo litlum fyrirvara. 

„Hún hefur sagt að henni hafi borið skylda og að hún hafi haft heimild byggt á áliti þessa fagráðs. En þetta hefur gríðarleg áhrif á störf þessa fólks sem hefur fjárfest og ráðið sig í vinnu. Sitt sýnist hverjum í hvalveiðimálum og það eru lög um til um það. En þegar vegið er að atvinnufrelsi þá finnst mér ekki óeðlileg að farið sé yfir sjónarmið formanns atvinnuveganefndar og annarra sem að málinu koma,“ segir Þórdís.

Bann við veiðum á langreyðu hefur mikil áhrif í Norðvestur …
Bann við veiðum á langreyðu hefur mikil áhrif í Norðvestur kjördæmi. mbl.is/Ómar

Ekki meiriháttar titringur 

Hvert átakamálið á fætur öðru hefur komið upp í ríkisstjórninni að undanförnu. Sjálfstæðismenn hafa verið sakaðir um útlendingaandúð af Jódísi Skúladóttur, stjórnarliða úr VG, hvalveiðibannið er umdeilt og þá hafa formenn stjórnarflokkanna allir tjáð sig um farveg áfengismála. Hver með sýnu nefi.

Hriktir í stoðum stjórnarsamstarfsins?

„Nei ég myndi ekki ganga svo langt að segja að það væri einhver meiriháttar titringur í stjórnarsamstarfinu. Við höfum vitað frá því við hófum samstarf að það væru mismunandi skoðanir um viss mál. Í einhverjum málum í grundvallaratriðum. Hvort sem það eru orkumál, skattar, jafnvel útlendingamál eða ákveðin viðskiptafrelsismál. Það er svo skrítið með þessi svokölluð litlu frelsismál sem á endanum verða alltaf risastór. Þau geta valdið miklum usla,“ segir Þórdís.

Tek það ekki til mín 

Varðandi útlendingamál þá segir Þórdís það ekkert nýtt að Sjálfstæðismenn hafi staðið fyrir ákveðinni nálgun í málaflokknum.

„Þetta eru gríðarlega flókin mál. Hér hefur þeim sem óskað hafa eftir alþjóðlegri vernd fjölgað mjög. Ég hef margoft sagt og lít svo á að við sem förum með völd í þessu samfélagi beri skylda til að búa þannig um hnútana að það ríki næg sátt um mál sem mjög auðvelt er að missa frá sér. Til þess að gera það verður að hafa kjark til að taka ákveðnar ákvarðanir, að hafa ákveðna stjórn á málunum. Þá er stutt í að maður sé sagður kaldur og vondur,“ segir Þórdís. 

Jódís Skúladóttir út VG sagði Sjálfstæðismenn velta sér upp úr …
Jódís Skúladóttir út VG sagði Sjálfstæðismenn velta sér upp úr rasískum drullupolli.

Orðið útlendingaandúð hefur líka verið fleygt fram (innskot blaðamanns).

„Það er auðvitað mjög stórt að segja svoleiðis. Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég tek það ekki einu sinni til mín. Ég veit fyrir hvað ég stend og hverjar breiðu línurnar í málaflokknum eru,“ segir Þórdís.

Neyðarkerfið sé ekki misnotað 

Segir hún að kerfið um hælisleitandamál sé neyðarkerfi sem sé ætlað að hjálpa þeim sem eru í mestri neyð hvað varðar ytri aðstæður, t.a.m. vegna stríðsátaka.

„Það verður að passa að þetta kerfi sé ekki misnotað. Því er ætlað að vernda þá sem eru að flýja ofsóknir, stríð og alvarlega hluti. Við vitum vel að það er fullt af fólki að leita að betra lífi. Það breytir því ekki að Ísland getur ekki eitt spilað annan leik og eftir öðrum reglum en löndin í kringum okkur. Ég er ekki að halda því fram að hælisleitendakerfið sé gallalaust. En það gengur ekki að við ein í fámennu landi séum að sníða nýtt kerfi eða að vinna þetta mál með einhverjum allt öðrum hætti en í öðrum löndum í kringum okkur,“ segir Þórdís.

Ekki auðveld pólitík 

Hún bendir á að miklar málamiðlanir hafi verið gerðar í útlendingafrumvarpinu sem samþykkt var í tíð Jóns Gunnarssonar fráfarandi dómsmálaráðherra. Það hafði verið lagt fram í svipaðri mynd af fyrri dómsmálaráðherrum og meðal annars henni. 

„Það var samþykkt eftir margra ára umræðu og framlagningu aftur og aftur. Ég fagna því ekki sérstaklega að umræða um útlendingamál eða hælisleitendamál séu að spretta fram með þeim hætti sem þau eru að gera. En það er einfaldlega afleiðing af því á hvaða stað við erum komin með þetta kerfi sem við erum með. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt sig fram um að regla þurfi að vera á þessu kerfi. Það er ekki alltaf auðveld pólitík. En það skiptir líka máli fyrir heildarmyndina þegar kemur að útlendingamálum almennt. Því útlendingar eru þeir sem munu tapa mest á þessu ef við missum umræðuna frá okkur,“ segir Þórdís.

Í dag eru útlendingar 15% af Íslensku samfélagi og Þórdís segir það af hinu góða. Passa verði upp á að umræða um þá verði ekki neikvæð enda auðgi þeir íslenskt samfélag. Gera verði greinamun á þeim tveimur kerfum sem snúa að útlendingamálum og þeim kerfum sem snúa að hælisleitendamálum.

Þórdís trúir því ekki að hvalveiðimálið og tónn Sjálfstæðismanna í …
Þórdís trúir því ekki að hvalveiðimálið og tónn Sjálfstæðismanna í útlendingamálum hangi saman. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Trúir ekki að málin hangi saman 

Telur þú að hvalveiðimálið sé einhvers konar andsvar við því hve tíðrætt Sjálfstæðismönnum hefur verið um málefni útlendinga að undanförnu?

„Ég vil ekki trúa því að þessi mál hangi saman. Ráðherra (Svandís) hefur sagt að svo sé ekki. Okkar sýn í málefnum útlendinga hefur legið fyrir og ekki alltaf verið mjög vinsæl. En ég held að það sé að renna upp fyrir fleirum mikilvægi þess að við séum með kerfi sem ræður við málaflokkinn. Okkar sjónarmið hafa legið fyrir í málaflokknum. Sama gildir um áfengismálið. Okkar skoðanir hafa legið fyrir í því máli í mjög mörg ár. En það er alltaf þannig að nútíminn bankar upp og í þessum tilvikum er það í formi frjáls markaðar og í formi erlendrar fjárfestingar með innkomu Costco og ég fagna því,“ segir Þórdís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert