„Það lifir enginn á svona upphæð“

Hjá Fjölskylduhjálp Íslands hefur bágstatt fólk lengi getað nálgast mat …
Hjá Fjölskylduhjálp Íslands hefur bágstatt fólk lengi getað nálgast mat og nauðsynjar. Mikil ásókn er nú í þessa þjónustu, að sögn formanns. mbl.is/Styrmir Kári

Hundruð bíða oft utan við húsnæði Fjölskylduhjálpar Íslands í Reykjavík og Reykjanesbæ áður en matarúthlutun hefst. Stundum er röðin svo löng að fólk hreinlega leggur ekki í að bíða. Samtökin veita nú einstaklingum og fjölskyldum mataraðstoð alla virka daga og er neyð þessa fólks oft mikil. Stór hluti er hælisleitendur.

Þetta segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, í samtali við Morgunblaðið. Hún segir sárt að horfa upp á fólk í þessari stöðu. Óverjandi sé að fjölmennur hópur hælisleitenda, einstaklingar og fólk með börn, þurfi að reiða sig nær alfarið á hjálparsamtök eftir mat og öðrum nauðsynjavörum.

„Það mætti halda að enginn velti því fyrir sér hvort fólk sem hingað kemur í leit að skjóli og betra lífi þurfi meiri peninga en átta þúsund krónur á viku. Það lifir enginn á svona upphæð og það hljóta allir að sjá,“ segir Ásgerður Jóna og vísar til þeirrar upphæðar sem íslenska ríkið útvegar hælisleitendum. „Þetta fólk þarf meiri aðstoð,“ bætir hún við.

Aðspurð segir Ásgerður Jóna stöðu fólks á Íslandi í raun ekkert hafa lagast þá nærri þrjá áratugi sem hún hefur unnið við hjálparstarf. Enn sé mjög hart í ári hjá mörgum.

Mæta oft löngu fyrir opnun

Ásgerður Jóna segir þá sem leita til Fjölskylduhjálpar eftir aðstoð í fyrstu hafa verið Íslendinga en svo hafi Pólverjar bæst í hópinn, einkum í kjölfar efnahagsþrenginga árið 2008. Nú sé hópurinn enn blandaðri en áður, mjög stór hluti er hælisleitendur, m.a. frá Venesúela. Íslendingarnir séu margir öryrkjar, einstæðir foreldrar og einstæðingar. Hælisleitendurnir séu hins vegar mun breiðari hópur; einstaklingar, fjölskyldufólk, ungir, aldnir og allt þar á milli.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert